Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 17:38:46 (1335)

2002-11-12 17:38:46# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[17:38]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona svo sannarlega ekki og hef enga ástæðu til að ætla það að starf þessarar nefndar fari í einhvern flokkspólitískan farveg. Það er eingöngu áferðin á því að nefndin er svona skipuð sem ég var að gera að umtalsefni. Mér er ekki kunnugt um það að um flokkspólitískan ágreining sé að ræða í þessum efnum svo neinu nemi. Það kann að vera kannski að menn gætu fundið hann í því hvernig ætti að standa að fjármögnun svona starfsemi að einhverju leyti og í hvaða mæli menn ættu að leita til einkaaðila um þátttöku í svona verkefnum o.s.frv. En það er þá eitthvað sem menn takast á um og glíma við.

Það er auðvitað fullt tilefni til að fara yfir það hvernig samskiptum sveitarfélaganna að þessu leyti við félagasamtök er háttað. Þau eru með mjög mikið af þessu á sínum herðum og eru sjálfsagt ekkert ofhaldin af því eða of sæl af því oft og tíðum vegna þess að návígið er mjög mikið þegar í hlut á veikburða starfsemi sem leitar á náðir síns sveitarfélags. Mér er vel kunnugt um það, og það þekkjum við sjálfsagt öll af samskiptum og samtölum við sveitarstjórnarfólk, að þá er oft erfitt að standa á bremsum.

Ég held að kosturinn við að fá fjármuni í sérstakt átak af þessu tagi sem færi þá í gegnum Forvarnasjóð sé m.a. að sá sjóður stendur tiltölulega óháður að því hvaða aðili á í hlut sem sækir um stuðning. Það er þannig að núverandi fjárstuðningur sjóðsins fer til fjölmargra aðila í gegnum þátttöku sjóðsins í margvíslegum verkefnum. Þá eiga í hlut félagasamtök og aðilar sem ýmist starfa á ábyrgð sveitarfélaga eða ríkis eða eru sjálfstæðir o.s.frv. Ég held að þannig þurfi það að vera. Þetta átak yrði að vera mjög víðtækt. Það yrði að vera hægt að styrkja góð verkefni og vera samstarfsaðili og þátttakandi í uppbyggilegum hlutum á öllu þessu sviði. Ég treysti áfengis- og vímuvarnaráði, sem þekkir þessa hluti ágætlega af sinni vinnu, mjög vel til þess að vera þar í forsvari.