Húsnæðismál Listaháskóla Íslands

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 13:59:56 (1347)

2002-11-13 13:59:56# 128. lþ. 29.3 fundur 232. mál: #A húsnæðismál Listaháskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ástæða fyrirspurnar minnar eða kveikjan að henni er m.a. sú heimsókn sem hv. menntmn. fór í til Kennaraháskóla Íslands í sl. mánuði. Þar var afskaplega vel tekið á móti okkur og við fórum um húsnæði skólans og skoðuðum mjög glæsilega nýbyggingu við hann og fræddumst um leið um störf og starfsemi Kennaraháskólans. Um leið kviknaði m.a. þessi hugmynd og ég átti samtal við einn starfsmann Kennaraháskólans um það hvort hægt væri að efla það svæði enn frekar, háskólasvæðið þar sem Kennaraháskóli Íslands er. Þar er enn þá pláss til staðar til að reisa 12--16 þús. fermetra byggingu og þá má um leið hugsa sér húsnæði Sjómannaskólans, en árið 1996 að mig minnir var þetta svæði sett saman í deiliskipulag, skipulagt allt saman þannig að mjög áhugavert væri að hugsa sér ákveðinn háskólakamp, ef svo má að orði komast, á þessu annars áhugaverða svæði.

Ég minni enn og aftur á umræðuna ekki alls fyrir löngu þegar talað var um að Listaháskóli Íslands ætti að koma í Hafnarfjörðinn, og mér fannst einfaldlega miður að ekki skyldi vera tekið betur í þá hugmynd, of langt frá 101 í Reykjavík. En engu að síður eigum við ekki að hætta að hugsa um hvernig þeim merka háskóla, Listaháskóla Íslands, er best fyrir komið og við þurfum að reyna að efla hann og styrkja og reyna að koma yfir hann meira en sómasamlegu húsnæði. Ég held að það væri afskaplega áhugaverð hugmynd að á því svæði þar sem Sjómannaskólinn og Kennaraháskólinn eru í dag yrði byggt yfir Listaháskólann en um leið reynt að hugsa sér ákveðna samvinnu á milli þessara skóla. Ég gæti vel trúað að ef þeir skólar væru á þessum stað þá yrði það kveikjan að enn betra samstarfi milli háskólanna og um leið yrðu þeir kröftugri, frjórri og öflugri í samfélaginu.

Þetta er einna helst ástæðan fyrir spurningum mínum sem hljóða á þá leið:

1. Hafa verið kannaðir möguleikar á því að reisa húsnæði yfir Listaháskóla Íslands á lóð Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð og mynda þar enn öflugri háskólareit?

2. Ef svo er ekki, mun ráðherra þá beita sér fyrir gerð könnunar á hagkvæmni þessa möguleika og um leið hvort samvinna fyrrnefndra háskóla á tilteknum sviðum sé raunhæf?