Fjarnám í fámennum byggðum

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:37:00 (1365)

2002-11-13 14:37:00# 128. lþ. 29.6 fundur 274. mál: #A fjarnám í fámennum byggðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:37]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að vekja máls á þessu og þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin.

Hér er um að ræða mjög stórt og brýnt mál sem snertir í raun þjóðina alla. Tækninni fleygir fram og það er einn allra jákvæðasti þáttur sem hugsast getur við símenntun þjóðarinnar að nýta þessa tækni. Þess vegna er nauðsynlegt að vekja athygli á því að allir landsmenn þurfa að hafa möguleika að stunda slíkt nám.

Oft er okkur fulltrúum í fjárln. legið á hálsi fyrir að vera með tilviljunarkenndar fjárveitingar eins og stundum er sagt. En það er einmitt í gegnum fjárlögin sem við höfum stutt við fjarnám. Þetta skiptir heilmiklu máli fyrir byggðarlög landsins. Fjárln. hefur í gegnum árin tekið upp á sitt eindæmi, get ég sagt, þó í góðu samráði við ráðherra og ríkisstjórn, að styrkja þessa möguleika. Hér er um afar brýnt mál að ræða fyrir landið allt.