Gjaldskrá tannlæknaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:06:40 (1379)

2002-11-13 15:06:40# 128. lþ. 29.8 fundur 124. mál: #A gjaldskrá tannlæknaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er vissulega fagnaðarefni að nú loks hafa þessir samningar náðst. Það er fagnaðarefni fyrir ríkið, fyrir tannlækna, en ekki síst fyrir sjúklinga eins og hæstv. ráðherra sagði.

Hins vegar hef ég ekki séð neina útreikninga á því hvert hlutfallið er á milli þeirrar hækkunar sem hefur orðið á gjaldskrá tannlækna á þeim fjórum árum sem samningar voru lausir og síðan þeirri breytingu sem verður, þ.e. á 22% hækkun á endurgreiðslunni. Ég hef ekki séð neinn samanburð á því hvort ástandið sé svipað og það var áður en samningarnir voru lausir. Svo er hitt, eins og hér hefur komið fram, að um það er að ræða að ekki tugir milljóna heldur hundruð milljóna hafa fallið á fjölskyldur landsins, barnafjölskyldur og lífeyrisþega, á þessu fjögurra ára tímabili sem ríkið trassaði að ganga frá samningum.

Ef maður skoðar umræðuna alveg frá 1998 þá virðist sem til staðar hafi verið vilji hjá Tannlæknafélaginu til að ganga til samninga en samninganefndina hafi skort tíma eða vilja til þess að ljúka samningunum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Eins hafa komið fram hér á Alþingi nokkrum sinnum mál, bæði í fyrirspurnaformi og þáltill., varðandi þennan mikla kostnað sem fellur á fjölskyldur. Ég vildi gjarnan fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvernig brugðist verður við. Er um afturvirkar reglur eða samninga að ræða eða verður tekið sérstaklega á varðandi þá sem hafa orðið fyrir verulegum kostnaði af þessum sökum á undanförnum fjórum árum?