Samgöngur milli lands og Vestmannaeyja

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:43:00 (1395)

2002-11-13 15:43:00# 128. lþ. 29.9 fundur 98. mál: #A samgöngur milli lands og Vestmannaeyja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:43]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Við erum nú eiginlega búin að fá þetta skriflega svar hæstv. ráðherra, vegna þess að allt verður þetta nú líklega fest á blað, allar þær tölur sem hann þuldi hér upp án þess að nokkur möguleiki væri á því að ná þeim jafnóðum. En þetta er fyrirspurn sem hér er flutt af hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sem er mál nr. 98 og var lagt fram á fyrstu vikum þingsins. Sambærileg fyrirspurn er síðan á þskj. 305, tiltölulega nýleg fyrirspurn sama efnis frá hv. þm. Kjartani Ólafssyni og ég lít þannig á að þar hljóti aðeins að vera um ítarefni að ræða.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. Það skiptir höfuðmáli fyrir uppbyggingu atvinnulífs í Vestmannaeyjum að ferðir þangað séu reglubundnar. Ekki má miða við einhverja álagstoppa, ef við ætlum að byggja þar á ferðaþjónustu sem möguleikarnir eru miklir til í Eyjum og þá verða að vera öruggar ferðir þangað, vegna þess að þeim fjölgar stöðugt sem koma hingað í svokallaðar pakkaferðir tvo, þrjá daga og hverfa síðan af landi brott og þeir fara ekki til Eyja nema um ferðaöryggi sé að ræða.