Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:29:27 (1440)

2002-11-13 18:29:27# 128. lþ. 29.18 fundur 265. mál: #A Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er hárrétt, eins og fram kom hjá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, að það þarf stöðugt að endurnýja forgangsröðun, ekki síst í umferðarmannvirkjagerðinni og skýrsla tryggingafélaganna vekur auðvitað athygli á tilteknum erfiðum slysastað. En vandi okkar á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar hefur lengi verið til staðar og ástæðan fyrir því að ekki hefur verið ráðist í framkvæmdir við breytingu á þeim gatnamótum eru skipulagsmál höfuðborgariunnar, eins og margsinnis hefur komið fram hér. Vilji höfuðborgarinnar og skipulagsyfirvalda stóð ekki til þess að hafa mislæg gatnamót þar. Fyrir stuttu hefur hins vegar orðið á breyting og nú einmitt þarf að huga að því við endurskoðun á vegáætlun hvenær við tökum þau gatnamót og hvenær við tökum gatnamótin í Garðabæ einnig. Þetta eru þau verkefni sem munu að sjálfsögðu koma inn.

Hvenær kynni hafi farið fram á þeim áformum Vegagerðarinnar gagnvart sveitarfélögunum, ég get nú bara ekki svarað því hér og nú. Það er stöðugt verið að kasta þessum bolta á milli sín á milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að verið er að skipuleggja og hanna þessi mannvirki og það er stöðugt samráð.

Hins vegar liggur alveg fyrir að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, eins og öll sveitarfélög eða sveitarstjórnir á landinu, vilja hraða framkvæmdum. Og ég er alveg viss um og veit það raunar, eins og kom fram hjá hv. þm., að í Garðabæ stendur mikill vilji til þess að hraða framkvæmdum við þessi mislægu gatnamót til hagsbóta fyrir umferðarflæðið innan Garðabæjar, þannig að ég hef ríkan skilning á þeirri þörf. En við verðum að forgangsraða og í því liggur okkar mál og allar vegaframkvæmdir eru til þess að draga úr slysahættu og slysum á vegunum. Um það snýst málið hjá okkur.