Utandagskrárumræða um kræklingarækt

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 10:40:52 (1465)

2002-11-14 10:40:52# 128. lþ. 30.91 fundur 235#B utandagskrárumræða um kræklingarækt# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[10:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist. Hér kemur hver maðurinn á fætur öðrum og skilaboðin úr þessum stól eru raunverulega þessi: Hvað vilja þingmenn upp á dekk? Til hvers á að ræða mál sem eru mikilvæg á Alþingi? Við í stjórnarliðinu ætlum að taka á þessu máli. Við ætlum að taka á málinu. Það á að ræða um það í sjútvn. og það á að ræða um það í fjárln. og hvað eru þingmenn þá að koma hér og kvarta um að þeir geti ekki tekið upp mál?

Virðulegi forseti. Ég verð að nefna að upp kemur orðið afskaplega leiðinlegur tónn hverju sinni sem menn kveðja sér hljóðs í upphafi þingfundar til að nefna eitthvað sem brennur á þeim eða þegar þeim finnst þeir ekki hafa fengið afgreiðslu mála sinna í þinginu. Mér finnst hvimleitt að hlusta á það hvernig tekið er á málum þingmanna, ég tala nú ekki um þegar í hlut á þingmaður sem er að fara út af þingi. Ég get ekki stillt mig um að hafa afskipti af þessari umræðu út frá því hvernig ég les hana.