Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:34:19 (1484)

2002-11-14 11:34:19# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eiginlega mætti segja að þetta frv. sé að hluta afsprengi ákvörðunar sem hæstv. ríkisstjórn tók á sínum tíma, fyrir einu ári eða svo, að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Þegar sú ákvörðun var tilkynnt eða boðuð var ekki hægt að ráða að það hefði farið fram mjög vönduð og yfirgripsmikil úttekt á meðferð þessara mála í stjórnsýslunni og menn væru búnir að leggja niður fyrir sér lið fyrir lið hvernig verkefnum Þjóðhagsstofnunar sem slíkrar yrði þá fyrir komið og hins vegar hvernig aðrar breytingar sem gæti verið skynsamlegt að gera, samanber þá sem hér er á dagskrá, yrðu tengdar inn í eða yrðu hluti af þessari nýju mynd.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé eitt af því sem við höfum vanrækt, þ.e. að fara með reglubundnum hætti yfir skipulag mála í Stjórnarráði Íslands og skoða hvaða breytingar gætu verið þarfar og nauðsynlegar. Þá á ég bæði við stofnanaflóruna, eins og hér er verið að fjalla um, en líka verkaskiptingu milli ráðuneyta innan Stjórnarráðsins. Þar eru ýmsir hlutir sem ég held að séu óumdeilanlega arfur frá löngu liðnum tíma og aðstæðum og mættu betur fara í dag.

Ég nefni sem dæmi þá ótrúlegu staðreynd, sem ég hef margreynt að taka upp á þingi, að málefnum lífeyrismála, almannatrygginga, félagslegrar framfærslu og þeirra þátta sem snúa að lífeyri og tryggingum, er dreift á þrjú ef ekki fjögur ráðuneyti. Ég er sannfærður um að það er eitt af því sem hefur vafist fyrir mönnum í sambandi við að endurskoða almannatryggingalöggjöfina og samþætta frjálsan lífeyrissparnað, skyldubundinn lífeyrissparnað, hlutverk tryggingakerfisins og síðan hlutverk velferðarkerfisins þegar það kemur til sögunnar. Ég er sannfærður um að slíkur tvístringur á þessum málum innan Stjórnarráðsins ráði þar miklu.

Hér er lagt til að fyrirtækjaskrá færist til ríkisskattstjóra en jafnframt tekið fram í frv. að athugunum og undirbúningi að flutningi þjóðskrár sé ekki lokið. Ég verð nú að leyfa mér að segja: Hefði ekki verið betra að byrja á öfugum enda og ákveða fyrst eftir vandaða yfirferð á málinu hvernig þjóðskrár- og almannaskráningarmálum yrði fyrir komið, hvernig fyrirtækjaskráningarmálum yrði fyrir komið og hver færi svo með hagsýslugerðina, þjóðhagsspár og annað í þeim dúr? Að þessu gerðu hefðu menn getað farið í, ef niðurstaðan hefði orðið sú að breyta stofnunum, að leggja niður Þjóðhagsstofnun, breyta hlutverki Hagstofunnar o.s.frv. Ég er ekki viss um að menn rati hér að öllu leyti rétta leið.

Ég vil líka spyrja hæstv. forsrh. í þessu sambandi: Hvað með kostnaðinn? Hefur orðið sparnaður af því að leggja niður Þjóðhagsstofnun? Eða er það rétt sem glöggir menn þykjast hafa lesið út úr fjárlagafrv. varðandi kostnaðinn? Hinn opinberi kostnaður sem áður var samfara rekstri Þjóðhagsstofnunar var upp á um 150 millj. kr. Er það rétt sem menn telja að nú séu sérmerktar í fjárlagafrv. a.m.k. 180 millj. beint vegna verkefna sem áður voru hjá Þjóðhagsstofnun? Heyrst hefur að þegar farið er yfir skýringar og athugasemdir með einstökum liðum fjárlagafrv. komi beinlínis fram að fjárveitingar sem ætlaðar eru til Seðlabanka, fjmrn., Hagstofu og jafnvel stéttarfélaga, séu upp á um 180 millj. kr., eyrnamerkt vegna verkefna frá Þjóðhagsstofnun en til hennar runnu um 150 millj. kr. Hver er þá sparnaðurinn? Hann er a.m.k. ekki fjárhagslegur ef þetta er rétt.

Að sjálfsögðu þarf það ekki að vera eina gilda ástæðan fyrir breytingum á starfsemi að með henni náist fram fjárhagslegur sparnaður. Það getur verið ávinningur af slíkum breytingum ef þær eru skynsamlegar í ýmsu öðru tilliti. En ég man ekki betur en menn væru m.a. að selja mönnum þessar breytingar á Þjóðhagsstofnun sem fjárhagslega hagræðingu.

Ég vil líka spyrja hæstv. forsrh. í leiðinni: Hvað telur hann líklegt að verði um þjóðskrána? Hvert er líklegt að hún fari, eigi að taka þennan skráningarþátt út úr Hagstofunni, sem mér sýnist vera hér á ferðinni? Menn segja sem svo: Það fer ekki vel á því, samanber alþjóðlega stefnumótun á þessu sviði, að stofnun sem annast hinar hagrænu spár og áætlanagerð og þarf að geta gætt ýtrasta trúnaðar gagnvart aðilum sem leggja henni upplýsingar sé jafnframt með almenna opna skráningu eins og fyrirtækjaskrá og þá væntanlega eftir atvikum einnig þjóðskrá. Gott og vel. Þá virðist stefnan sú að færa skráningarþættina út úr Hagstofunni. Hvert fer þá þjóðskráin? Fer hún til ríkisskattstjóra? Er líklegt að menn telji það farsælt? Er ekki verið að setja ansi mikið til ríkisskattstjóra? Þar er að vísu öflugur maður í forsvari, gamalvanur gráni í stjórnsýslunni og ágætlega mönnuð stofnun, en það er ekki þar með sagt að það eigi að fara að hrúga þessu öllu þangað.

Ég skrifa ekki upp á það fyrir fram, herra forseti, fyrr en það hefur verið rækilega athugað að ekki getið komið upp sambúðarvandamál innan embættis ríkisskattstjóra við að hafa þessa skráningu þar og svo hlutverk skattyfirvalda. Ríkisskattstjóri er jú skattyfirvald með úrskurðar- og hálfgert löggæslu- eða lögregluvald að vissu leyti. Er þá endilega víst að þessar skráningar eigi vel heima þar? Óttast ekki hæstv. forsrh. að til þess geti komið að fyrirtækin verði tortryggin á þetta fyrirkomulag?

Ég velti fyrir mér og spyr: Hefði kannski ekki verið vænlegra að fara akkúrat hina leiðina og skilja eftir í stofnun, sem þá hefði kannski verið kölluð Skráningarstofan eða Skráningarstofnun hins opinbera, skráningarhaldið og umsýslu utan um það? Þannig að fyrirtækjaskrá, þjóðskrá og aðrar almannaskrár hefðu verið í algerlega sjálfstæðri og mjög vel varinni stofnun sem hefði verið algerlega hlutlaus gagnvart framkvæmd stjórnsýslunnar, skattálagningu, refsimálum, sakaskrá og öðru slíku. Þarna er um að ræða mjög viðkvæmar og vandmeðfarnar upplýsingar.

Ég vil líka spyrja hæstv. forsrh. hvort í tengslum við þetta hafi farið fram lögfræðileg athugun á því hver sé líkleg framtíð miðlægra skráa af þessu tagi. Er sjálfgefið að það verði yfir höfuð samþykkt í framtíðinni, ekki síst með hliðsjón af möguleikum og kostum en líka hættum sem geta verið samfara hinni rafrænu tækni, að færa svona miðlægar skrár?

Í ýmsum löndum hér í kringum okkur fer fram um þetta umræða og er jafnvel þróun í gangi sem virðist frekar benda til þess að slíkar miðlægar skrár verði á undanhaldi en hitt, einfaldlega vegna þess að menn sjá í þeim ýmsar hættur og ýmiss konar vanda í sambandi við umbúnað um þær. Sums staðar ganga menn svo langt til dæmis að það er ekki lengur til símaskrá, ekki lengur til miðlægar símaskrár. Af hverju? Af því það þykir ekki við hæfi að vera að safna saman slíkum upplýsingum um einkahagi manna sem hver og einn getur fyrirhafnarlaust fengið aðgang að, hvaða síma menn hafi og hvar menn séu til heimilis. Sums staðar er algerlega bannað að veita upplýsingar af því tagi sem við veitum í 118 af því að það gengur bara ósköp einfaldlega of nærri persónulegum högum manna að Jón Jónsson geti tekið upp tólið og hringt og viti eftir fimm mínútur hvaða síma þú hefur og hvar þú býrð. Þetta kannast þeir væntanlega við sem hafa lent í því að tapa kunningjum sínum í ónefndum löndum og ætla að reyna að finna þá. Það er a.m.k. ekki hægt með því að fletta upp í símaskránni eða hringja í 118. Slíkt er ekki til.

Ég geri ráð fyrir því að einhvers konar miðlæg eða samfelld þjóðskráning verði áfram við lýði. Það er erfitt að sjá að þjóðríki getið haldið utan um sín mál öðruvísi en að einhvers konar ,,national register`` sé til staðar. En það er ástæða til að velta því fyrir sér, í ljósi þróunar í persónuverndarmálum og ýmsu fleiru sem tengist líka rafrænu tækninni sem við vorum einmitt að ræða hér á undan, hver framtíðin verður í þessum efnum.

Mér finnst menn því þurfa að skoða þetta, herra forseti, allt saman mjög opið. Ég er ekki að útiloka neitt fyrir fram í þessum efnum, heldur ekki að þetta geti farið ágætlega, a.m.k. hvað þennan fyrirtækjaþátt varðar hjá ríkisskattstjóra. Sjálfsagt er það rétt sem kom fram í framsöguræðu hæstv. forsrh. að það er ýmiss konar hagræði í því fólgið að sameina þá skráningu sem hefur verið til staðar hjá skattinum --- af augljósum ástæðum þarf skatturinn að vita hverjir eru lögaðilar í landinu og skattskyldir aðilar með þeim hætti o.s.frv. --- sjálfri fyrirtækjaskránni, sjálfri uppflettiskrána með nöfnum fyrirtækja og forsvarsmanna þeirra. Manni hefur reyndar stundum fundist að uppfæra mætti þá skrá betur. Þar eru draugafyrirtæki og skúffufyrirtæki sem ekki hafa haft neina starfsemi með höndum árum saman á tvist og bast innan um önnur sem eru lifandi og virk. Ég kann svo sem enga lausn á því vandamáli en sjálfsagt er þörf á að taka til í því eins og fleiru. Kannski verður þessi flutningur og endurskipulagning til að þeir hlutir verði yfirfarnir.

Herra forseti. Það voru einkum þessi atriði sem ég vildi gera að umtalsefni og inna hæstv. forsrh. eftir, en ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingnefnd fari rækilega yfir þetta allt saman og málið komi hér í vönduðum búningi aftur til þingsins.