Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 11:50:38 (1487)

2002-11-14 11:50:38# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[11:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu sinni fyrr vék hv. þm. að Þjóðhagsstofnun og því sem þar var um að ræða. Ég hlýt að vekja athygli á því að meginástæðan fyrir því að sú stofnun var lögð niður var ekki að menn væru að leita að miklum sparnaði í þeirri aðgerð. Það hafði löngum verið rætt, ég hygg fyrst 1982, að Þjóðhagsstofnun gegndi hlutverki sem aðrir væru þegar farnir að axla.

Mér finnst fara afar vel á því að til að mynda samtök eins og Alþýðusambandið og reyndar önnur launþegasamtök hafi öfluga þekkingu innan borðs hjá sér. Ég sé ekkert að því að ríkisvaldið styðji við bakið á slíku eins og kemur fram í fjárlagafrv. gagnvart Aþýðusambandinu og eru viðræður í gangi við aðra aðila um eitthvað sambærilegt. Mér finnst það alls ekki óeðlilegt miðað við þá þróun sem átt hefur sér stað. Áður fyrr var það aðeins stofnun ríkisins sem gat ein veitt þjónustu af þessu tagi og allir horfðu til þess. Nú sjáum við að bankarnir eru farnir að gera sínar eigin þjóðhagsspár og ekki verður séð að viðskiptabankarnir búi yfir lakari upplýsingum af neinu tagi en Þjóðhagsstofnun gerði áður fyrr. Ríkið hefur sína stofnun til að undirbúa ráðstafanir sínar hvað varðar þróun efnahagsmála og fjársýslu ríkisins.

Ég tel að það hafi verið löngu tímabært að breyta þar um, ekki halda hinu gamla kerfi við kerfisins vegna. Ég hygg þó að það hafi aldrei verið nein meginröksemd hér að það mundi leiða til mikils sparnaðar, hins vegar til skilvirkari verkefna.

Eins hef ég áður sagt að mér finnist eðlilegt að Hagstofan verði síðar meir lögð af sem sérstakt ráðuneyti. Mér finnst óeðlilegt, miðað við hlutverk hennar, að hún sé ráðuneyti og tel að sá dagur hljóti fljótt að koma að hún verði felld undir sérstaka stofnun en ekki undir ráðherra beint þótt ég hafi sjálfur lengi verið hagstofuráðherra.