Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:03:20 (1490)

2002-11-14 12:03:20# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kemur inn á marga athyglisverða hluti í ræðu sinni. Það má vel vera að við ættum að gera meira af því sem gert er sums staðar annars staðar, t.d. í Danmörku, að vera hreyfanlegri hvað það varðar að færa verkefni til, til að mynda við myndun einstakra ríkisstjórna, innan úr ráðuneytum, milli ráðuneyta og þess háttar. Það getur hljómað eins og um lausung sé að tefla. En með sama hætti getur það einnig þýtt að það fríski upp á stöðuna. Einnig getur það verið leið til þess að nýta starfskrafta tiltekinna ráðherra um tiltekinn tíma og eins getur það verið svo að sum verkefni séu brýnni á því augnabliki í þjóðlífi, á þriggja, fjögurra eða fimm ára tímabili, og því sé eðlilegt að sameina úr tveimur, þremur ráðuneytum vissa þætti undir einn hatt, jafnvel tímabundið.

Þetta er þáttur sem við ættum kannski að hugleiða. Þetta er gert mjög oft í Bretlandi. Þar eru slíkir hlutir færðir til milli ráðuneyta, teknir úr einu ráðuneyti og settir í önnur til þess að meta og sjá um nokkra hríð hvað fari best saman. Við höfum verið mjög rígbundin hér, fest þetta niður og á það hefur verið bent að sumir þættir, til að mynda í hinu félagslega velferðarkerfi, heyri kannski ekki undir rétt ráðuneyti eins og nú standa sakir. Við ættum kannski að vera hreyfanlegri í þeim efnum.

Varðandi skrárnar þá var hugsunin sú í fyrstunni að færa bæði fyrirtækjaskrána og þjóðskrána til ríksskattstjóra. En við nánari athugun hefur þótt rétt og eðlilegt að fyrirtækjaskráin væri flutt en ekki endilega þjóðskráin. Nú stefnir í það að þjóðskráin verði færð undir hæstv. dómsmrh. fremur en til ríkisskattstjóra og undir fjmrh. Það er núna líklegast og ég held að á því geti farið vel.