Birting laga og stjórnvaldaerinda

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:14:28 (1496)

2002-11-14 12:14:28# 128. lþ. 30.4 fundur 352. mál: #A birting laga og stjórnvaldaerinda# (Lögbirtingablaðið) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:14]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64/1943.

Í frv. er lagt til að heimilt verði að gefa Lögbirtingablaðið eingöngu út á rafrænan hátt.

Frv. er samið af nefnd sem ég skipaði haustið 2000 til að gera tillögur um framtíðarskipulag á birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Var samning frv. þessa liður í starfi nefndarinnar sem vinnur áfram að heildarendurskoðun á lögunum.

Þann 1. febrúar sl. var opnaður á netinu sérstakur gagnagrunnur Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs og síðan þá hafa báðar þessar útgáfur verið aðgengilegar jafnt prentaðar sem í rafrænu formi. Skemmst er frá því að segja að reynslan af þessu hefur verið góð og er óhætt að fullyrða að aðgangur að settum réttarheimildum á netinu hafi batnað til muna. Þá blasir við að áskrifendum Lögbirtingablaðsins hefur fækkað jafnt og þétt sl. fjögur ár, frá rúmlega 3.000 árið 1998 í tæplega 1.900 þann 1. ágúst 2002.

Í ljósi þessa er lagt til að hin prentaða útgáfa Lögbirtingablaðs verði leyst af hólmi með rafrænni birtingu. Ekki þykir þó rétt að svo stöddu að leggja til breytingu á útgáfu Stjórnartíðinda í þessa átt og munu þau áfram verða prentuð á hefðbundinn hátt. Gert er ráð fyrir að þeir sem þess óska geti áfram fengið prentað blað sent til sín reglulega eða samkvæmt beiðni. Munu þá starfsmenn Lögbirtingablaðs prenta það af netinu og senda gegn greiðslu kostnaðar. Breytingin mun ekki hafa áhrif á útgáfu Lögbirtingablaðsins að öðru leyti og ekki hagga þeim réttaráhrifum sem bundin eru birtingu í blaðinu.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.