Velferðarkerfið

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 15:12:04 (1518)

2002-11-18 15:12:04# 128. lþ. 31.1 fundur 243#B velferðarkerfið# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu og fyrirspurn til hæstv. forsrh. Veigamikill þáttur í velferðarkerfinu er að tryggja að enginn þurfi að búa við fátækt. Í júlí sl. sumar fóru fram skarpar umræður og greinaskrif af hálfu eldri borgara um kjör þeirra, stöðu eldri borgara og á hjúkrunar- og dvalarheimilum og tengd málefni. Í framhaldi af því varð að samkomulagi að nefnd skipuð fulltrúum Landssambands eldri borgara og fulltrúum ríkisins mundu fjalla um málið.

Nú stendur fjárlagavinna sem hæst og því var heitið við 1. umr. að þessi mál yrðu tekin til skoðunar, varðandi eldri borgara, sjúkrahúsin, Tryggingastofnun o.fl. en ég tek fram að við 1. umr. var sagt að mál eldri borgara væru í vinnslu. Ég spyr því hæstv. forsrh. um stöðu þess máls. Eru fyrirliggjandi tillögur varðandi þau atriði sem ég taldi upp sem umfjöllunarefni væntanlegar á næstunni? Verða þær komnar í næstu viku til umfjöllunar þingsins við 2. umr. fjárlaga?

Spurningin er um vítahring fátæktarinnar. Ætlum við að rjúfa hann? Ætlum við að leysa fátæktargildruna sem bótaþegar sitja í? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að koma á einhverri varanlegri lausn á því máli eða á að halda áfram að refsa bótaþegum, ungum og öldnum, með því að skerða bætur þeirra ef þeir afla einhverra tekna?