Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:29:56 (1549)

2002-11-18 16:29:56# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:29]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Að því er varðar útreikninga á framlagi þjóðar til vísindamála förum við að þessu eins og aðrar þær þjóðir sem gefa þessar upplýsingar eftir stöðluðu kerfi frá OECD. Samanburðartölur eru því fyllilega samanburðarhæfar frá þeim þjóðum sem ég nefndi í máli mínu.

Að því er varðar þessa samlíkingu sem hv. þm. kaus að velja um eggin í körfunni er mikilsvert að við hugum að því að breytingarnar eru afleiðing þess að vísindi og rannsóknir eru orðin miklu meira ráðandi þáttur í efnahag þjóðarinnar en áður hefur verið gert ráð fyrir, og breytingin er beinlínis afleiðing af þessu. Ég tel því að við séum ekki með þessari breytingu að setja í raun þrengri skorður heldur en verið hafa, frekar víðari skorður, og við tryggjum að á þessu sé tekið með samræmdum hætti þannig að engin svið verði út undan.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að taka undir það með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að það sem skiptir mestu máli í þessu er svo framkvæmdin, þ.e. hvernig þetta verður gert í raun. Það er ástæðulaust að draga úr því að framkvæmdin mun skipta sköpum um það hvernig til tekst með þessar breytingar.