Vísinda- og tækniráð

Mánudaginn 18. nóvember 2002, kl. 16:31:32 (1550)

2002-11-18 16:31:32# 128. lþ. 31.13 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv., 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 128. lþ.

[16:31]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við eigum nú eftir að ræða þessar breiðu línur í þeim nefndum sem munu fjalla um þetta og þá einkanlega þá leið sem hér er ákveðið að fara, að stjórnmálavæða í auknum mæli framlög til vísinda og þróunar.

En aðeins vegna orða hæstv. ráðherra um framlög, þá vil ég vitna í orð Vilhjálms Lúðvíkssonar á fundi hjá Reykjavíkurakademíunni fyrir ekki margt löngu, en þar sagði Vilhjálmur eitthvað á þá leið að framlag til Vísindasjóðs árið 1994 hafi verið u.þ.b. 90 mannár eða svo, eins og þeir leggja það út og reikna það þar, en framlag Vísindasjóðs árið 2000 hafi ekki verið nema rúmlega 50 mannár. Það fer því eftir því hvað menn taka inn í þessar tölur og hvernig menn leggja það upp, hverju menn geta haldið fram í umræðunni og ég ætla svo sem ekkert að steypa mér inn í það. En kjarninn í þessu er sá að við munum á komandi árum auka framlög til þessara þátta, því ég held að ég og hæstv. menntmrh. séum sammála um að það er lykilatriði. Það er algert lykilatriði ef tryggja á farsæld og framtíð þeirrar þjóðar sem við tilheyrum.