Matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:46:35 (1575)

2002-11-19 13:46:35# 128. lþ. 32.92 fundur 252#B matsskýrsla um umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins af öðru tilefni, þ.e. að ég hef fyrir alllöngu síðan lagt hér inn beiðni um umræðu utan dagskrár þar sem settur umhvrh. yrði til svara vegna stöðu mála hvað varðar mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að miklar deilur hafa risið um þetta mat. Vísindamenn hafa komið fram með mjög alvarlegar ásakanir um að gögn þeirra hafi ekki verið rétt meðhöndluð, að matsskýrsla framkvæmdaraðila byggi ekki á hlutlægri úrvinnslu grunngagna og þar af leiðandi sé ástæða til að vefengja sjálft matið.

Um þetta vildi ég spyrja hæstv. ráðherra. Mér er að sjálfsögðu ljóst að hæstv. ráðherra er að undirbúa efnislegan úrskurð í málinu. Ég ætlaði ekki að fara fram á að ráðherra tjáði sig fyrir fram um hann en mér finnst ansi hart ef enginn umhvrh. er í landinu til svara um almenna stöðu máls af þessu tagi. Spurningarnar sem ég ætlaði að bera fram voru m.a. hvernig ráðherra mæti stöðuna, hvort ráðherra teldi jafnvel þörf á að endurtaka matsferlið í heild sinni eða hvernig ráðherra hygðist, í ljósi þessara aðstæðna og deilna sem m.a. eru komnar upp milli manna úr vísindasamfélaginu og framkvæmdaraðilans, fá óháða og hlutlæga ráðgjöf í málinu.

Það getur ekki verið svo, herra forseti, að landið sé umhverfisráðherralaust. Það er algerlega ómögulegt að trúa því. Þeir eru frekar tveir en einn þessa dagana. Þess vegna uni ég því heldur illa að ekki skuli hægt að fá hér, jafnvel ekki með margra daga fyrirvara, umræðu þar sem hægt væri að fá svör við spurningum um almenna stöðu málsins. Ég er heldur ósáttur við að hæstv. ráðherra skuli ekki treysta sér í umræðuna. Ég minni á að það er réttur þingmanna að taka mál upp við slíkar aðstæður. Ráðherrar hafa ýmsar skyldur, ríkar skyldur, þar á meðal þær að upplýsa Alþingi um stöðu mála og auðvitað að sinna þingskyldum sínum eins og hverjir aðrir menn.