Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 14:23:11 (1590)

2002-11-19 14:23:11# 128. lþ. 32.9 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um hvort Fjármálaeftirlitið hefur haft málefni þessa tiltekna lífeyrissjóðs sérstaklega til athugunar en eftirlitið hefur að sjálfsögðu almenna eftirlitsskyldu gagnvart þessum sjóði eins og öðrum.

Að því er varðar hvort nauðsyn sé að um þennan sjóð gildi sérstök lög hef ég miklar efasemdir um það. Hann hvílir hins vegar á gömlum merg og fyrstu lögin um hann munu hafa verið samþykkt árið 1958. Í framhaldi hefur sem sagt verið ákveðin þróun sem kannski er erfitt að vinda ofan af. Ég veit að þetta hefur verið rætt innan stjórnar sjóðsins oftar en einu sinni þó svo ég hafi ekki rætt það við stjórnarmenn hvort þarna eigi að gera breytingar. Mér finnst eðlilegt að fara yfir það með almennum hætti hvort ekki sé skynsamlegt að fella þennan sjóð eins og flesta aðra lífeyrissjóði undir hin almennu lög.

Það sem hér er á ferðinni er sem sagt tillaga stjórnar til að ráða bót á fjárhagsvanda sjóðsins til þess að hann geti uppfyllt þær reglur sem almennt gilda um lífeyrissjóði. Ég tel að stjórn sjóðsins hafi sýnt mikla ábyrgð í þessum tillögum. Hún vill ekki að sjóðurinn lendi í fjárhagserfiðleikum og geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þess vegna vill hún skerða réttindin sem um er rætt hér í frv. áður en til slíks kemur. Það tel ég vera ábyrga afstöðu.

Hitt er svo annað mál að þessi sjóður þurfti á árunum kringum 1980, þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sat hér sitt fyrsta kjörtímabil, að taka á sig byrðar sem þáverandi ríkisstjórn ákvað að fella á sjóðinn sem hafa orðið honum síðan mjög þungar í skauti. Sjóðnum var ekki bætt sú skylda að stórauka réttindi tiltekins hóps sjómanna en það var hluti af félagsmálapakka þáverandi ríkisstjórnar á þeim tíma.