Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 15:07:00 (1598)

2002-11-19 15:07:00# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem er 359. mál þingsins á þskj. 399.

Frv. um breytingu á þessum lögum er lagt fyrir hvert haustþing. Það er í samræmi við 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Fyrir 15. september ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.

Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.

Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundr\-aðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.``

Niðurstaða skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá 15. september sl. gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds og er þetta frv. um breytingu á álagningarhlutföllum 5. gr. laganna því lagt fram. Með frv. eru álagningarhlutföll hækkuð en lágmarksgjöld eru óbreytt. Áætlað er að álagseftirlitsgjald hækki úr 211,7 millj. kr. árið 2002 í 259,7 millj. kr. árið 2003, þ.e. um rúm 22%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári nemur 263,5 millj. kr. en 268,4 millj. kr. á því næsta sem er tæplega 2% hækkun. Ástæðan fyrir því að álagt eftirlitsgjald hækkar meira en nemur hækkun rekstrarkostnaðar er sú að í byrjun þessa árs voru 47,9 millj. kr. peningalegar eignir yfirfærðar frá fyrra ári.

Frv. fylgir skýrsla Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað þar sem ítarlega er farið yfir rekstur Fjármálaeftirlitsins. Þá er sérstakur viðauki með skýrslunni þar sem fram kemur sýn Fjármálaeftirlitsins á rekstri til næstu þriggja ára. Er þessi hluti skýrslunnar í samræmi við óskir efh.- og viðskn. frá síðasta hausti.

Frv. fylgir einnig álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins.

Að síðustu fylgir frv. skýrsla Fjármálaeftirlitsins til viðskrh. um starfsemi eftirlitsins frá 1. júlí 2001 til 30. júní 2002 en þessi skýrslugjöf er í samræmi við 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í skýrslunni er mjög ítarlega farið yfir eftirlit Fjármálaeftirlitsins á einstökum sviðum fjármálamarkaðarins, þróun og horfur á fjármálamarkaði og áherslur í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missirin.

Herra forseti. Ég mælist til þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.