Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:02:30 (1603)

2002-11-19 16:02:30# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af umræðu sem hér hefur spunnist um svokallaða kínamúra í fjármálalífinu. Eins og kunnugt er eru kínamúrar notaðir um þau skil sem eiga að vera innan fjármálastofnana þannig að hagsmunir rekist ekki á.

Ég held að þetta tal um kínamúra sé blekking, og sjálfsblekking í besta falli. Í sumar fór hér fram talsverð umræða um siðferði í fjármálaviðskiptum. Hún var síður en svo einskorðuð við Ísland. Hún fór fram í Bandaríkjunum og víða um heim í kjölfar hneykslismála sem komið höfðu upp í Bandaríkjunum. Ég held að staðreyndin sé sú að enginn múr sé þannig að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann. Ég held að hann leiti jafnan yfir slíka múra.

Vandinn er sá að iðulega eru stofnanir að gera tvennt í senn, ráðstafa fjármunum annarra og fjárfesta fyrir eigin hag. Þegar svo er skapast sú hætta að hagsmunir rekist á. Ég tel að eina leiðin til að koma í veg fyrir slíkt sé aukin verkaskipting á fjármálamarkaði. Annaðhvort eru fyrirtæki í fjárfestingum fyrir aðra eða þau eru í fjárfestingum fyrir sig sjálf. Hættan er sú að fyrirtæki á fjármálamarkaði sé fengið til þess að koma verðbréfum á markað --- það hefur iðulega gerst hér og ég þekki dæmi þess án þess að ég ætli að nefna þau --- það kaupir síðan sjálft þessi bréf og hagsmunir þess eru þá að hafa bréfin á eins lágu verði og mögulegt er. Síðan fjárfestir sama fyrirtæki fyrir sjóði, t.d. lífeyrissjóði. Það selur þá sjóðunum bréfin úr eigin fyrirtæki á eins háu verði og unnt er. Mismunurinn þarna á milli er hagnaður sem verður eftir hjá fyrirtækinu. Þá er spurningin þessi: Er hægt að reisa svo trausta múra að ekki verði þarna hagsmunaárekstur? Ég held ekki. Ég held að það sé hreinlega ekki hægt.

Ég held að eina leiðin til að koma í veg fyrir þetta sé aukin verkaskipting á fjármálamarkaði, það séu alveg hreinar línur að þau fyrirtæki sem fjárfesta fyrir sjóði einskorði sig við það hlutverk eitt en séu ekki sjálf í fjárfestingum fyrir eigin hag. Þetta held ég að sé eina leiðin til að taka á þessum málum.

Við kynntumst vandamálinu sl. vor í tengslum við umræðuna um deCODE og hugsanlega ábyrgð ríkisins á lánum til þess fyrirtækis. Þá kom fram á sjónarsviðið gamalkunnugt fyrirtæki, eitt af stærstu fjárfestingarfyrirtækjum í heimi, Morgan Stanley, sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, a.m.k. vísaði ríkisstjórnin í gögn frá Morgan Stanley. Hvert skyldi hlutverk þessa fyrirtækis hafa verið aðeins fáeinum mánuðum áður? Jú, það var að koma verðbréfum deCODE á markað, hér og annars staðar. Þarna voru gagnstæðir hagsmunir. Það er vísað í enn eitt fjármálafyrirtæki sem einnig hafði tengst hagsmunum deCODE.

Menn þurfa að vanda sig mjög þegar þeir velja ráðgjafa og blekkja sig ekki á því að fyrir hendi séu múrar sem, þegar allt kemur til alls, eru hreinlega ekki til.

Það er mjög mikilvægt að hafa allar þessar reglur og lög til þess að gæta að siðferðinu en síðan er náttúrlega eitt sem við höfum ekki rætt hér og tökum upp á öðrum vettvangi, hin siðferðilega og pólitíska ábyrgð sem ríkisstjórnin ber gagnvart ráðstöfun fjármuna í samfélaginu. Við erum að verða vitni að einhverju mesta hneyksli síðari tíma í þeim efnum, sem er aðkoma ríkisstjórnarinnar að sölu á hlut þjóðarinnar í Búnaðarbanka og Landsbanka. Það er náttúrlega fullkomið hneyksli hvernig þar er staðið að málum.

Fyrir fáeinum missirum var talað um mikilvægi þess að tryggja svokallaða dreifða eignaraðild við sölu bankanna. Það var talað um 5% eða 8%, að enginn aðili mætti eignast stærri hlut en því næmi. Forsrh. tók t.d. vel undir hugmyndir af þessu tagi. Þeir sem gagnrýndu þær sögðu að það væri mjög erfitt að koma þessu við, seljendur réðu því ekki hvað gerðist á eftirmarkaði vegna þess að á því væru tæknilegir örðugleikar. Ég er ekki sammála því en það var sjónarmiðið, að einvörðungu vegna þess að það væri tæknilega erfitt væri horfið frá þessari hugmynd. Þannig töluðu menn á sínum tíma.

Síðan bregður svo við að menn snúa við blaðinu. Og nú er farið að tala um kjölfestufjárfesta. Til hvers skyldi þetta hafa verið gert? Það var til þess að tryggja að Sjálfstfl. og Framsfl. gætu samið um þessi skipti. Síðan hófst það ferli sem þjóðin þekkir, það er byrjað að skáka til eignunum, færa VÍS undan Landsbankanum, setja það fyrirtæki undir fyrrverandi varaformann Framsfl. og síðan koll af kolli, fyrirtæki sem eru í nánum tengslum við framsóknarmenn sameinast um tilboð í Búnaðarbankann, ríkisstjórnin fellst á það án þess þó að viðkomandi þurfi að greiða út nokkra peninga í upphafi og síðan er brautin greið og bein. Arður af þessari starfsemi er mikill, hreinn arður af Búnaðarbankanum, hreinn gróði, á þessu ári eftir skatta er 2.500 millj. kr. Ef arður hefði verið greiddur í ríkissjóð til að fjármagna halla á sjúkrahúsum og velferðarþjónustu hefði hann á þessu ári verið um 500 millj. kr., hálfur milljarður. Þetta eru menn að gefa frá sér, þessar eignir þjóðarinnar. (Viðskrh.: Gefa frá sér?) Þeir eru að gefa þetta frá sér. Og þeir gefa það þeim sem þeim eru sérstaklega þóknanlegir.

Og ég spyr: Ef menn lögðu svona mikið upp úr því að koma þessum eignum þjóðarinnar á markað, hvers vegna voru þær ekki markaðssettar? Hvers vegna voru bréfin ekki boðin út á hlutabréfamarkaði í stað þess að vera að makka með þetta á bak við tjöldin?

Meira að segja liggja ekki fyrir upplýsingar um hverjir þessir eignaraðilar eru. Þeir taka breytingum nánast frá morgni til kvölds, samsetningin á þessum hópum. Það hefur gerst upp á síðkastið. Síðan kemur hér hæstv. viðskrh. og talar um siðferði, gagnsæi og opna og heiðarlega nálgun gagnvart fjármálalífinu. En hvernig ber ríkisstjórnin sig sjálf að? Það er með þessum hætti, með þessum gamla spillingarhætti. Það er það sem er að gerast. Það er verið að taka verðmætar eignir úr höndum þjóðarinnar og færa þær vildarvinum ríkisstjórnarinnar. Og þetta er staðreynd.

Ef menn hefðu fyrst og fremst viljað koma þessum eignum á markað hefði átt að fara þá leið og fara með þessi hlutabréf á markað. (Viðskrh.: Er þetta ekki á markaði?) Við erum að tala um fjármálamarkað, já, og hvernig menn bera sig að á þeim markaði, hvaða reglur skuli gilda og hvaða siðferði menn skuli hlíta. Og ég er að benda á að þeir sem tala hér fyrir frumvörpum á hástemmdan hátt koma fram sjálfir á þennan ámælisverða gagnrýnisverða hátt.