Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:03:51 (1618)

2002-11-19 17:03:51# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:03]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talar um áherslubreytingu. Hann talaði í fyrri ræðu sinni um að þetta ráðslag, að breyta í hlutafélög og annað slíkt, mundi allt enda á borði neytenda. Ég minnist þess að hv. þingmenn Vinstri grænna skrifuðu grein í Morgunblaðið fyrir alllöngu, sennilega fyrir ári eða svo. Þá var talað fyrir sláturhúsi í hverri vík því að það væri svo ósköp huggulegt, veitti atvinnu og þar fram eftir götunum því að sameining sláturhúsa og þetta sameiningarferli væri almennt mjög slæmt.

Hv. þm. sagði áðan að þetta ráðslag endaði allt á borði neytenda en hvernig skyldi fara þegar greiða þarf laun í öllum þessum sláturhúsum, sem væru óarðbær? Það skyldi ekki vera að annaðhvort væru erfiðleikar með að greiða þar há laun eða þá að verðið á afurðunum yrði það hátt að það kæmi niður á neytendum? Hlutirnir verða einhvern veginn að ganga upp í málflutningi hv. þingmanna Vinstri grænna sem og hjá öðrum.