Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:17:23 (1621)

2002-11-19 17:17:23# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:17]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum áfram þar sem frá var horfið um till. til þál. um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Tillagan er á þá leið að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að kanna þróun vöruverðs og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni síðastliðin tíu ár og bera saman við þróunina á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili. Nefndin kanni jafnframt hvaða þættir hafa helst áhrif á vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar og hvar skilur á milli.

Ég vil bara segja, virðulegi forseti, að ég styð þá tillögu að við förum í slíka nefndarskipun. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Svona nefndarskipun getur unnið á grunni nýsamþykktrar byggðaáætlunar því að við gerum okkur öll grein fyrir því að það þarf að taka landsbyggðarmálin og vandann þar föstum tökum. Þetta er einn liðurinn í rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækjanna á landsbyggðinni en eins og kunnugt er eru þar aðrir stórir póstar sem taka þarf til umfjöllunar, svo sem sjávarútvegsstefnan sem er margbúið að ræða um sem grundvallarþátt í stöðu dreifbýlissveitarfélaganna við sjávarsíðuna. Ég nefni til sögunnar samgöngur almennt og samgöngumöguleika, jafnframt fjarskipti og möguleika á fjarskiptum í nútímasamfélagi, póstþjónustu, þjónustu banka og fjármálastofnana o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég fjallaði í fyrri ræðu minni um þetta mál almennt og ætla ekki að lengja það neitt sérstaklega. Ég vil þó benda á að ég tel að málið sé í heild sinni gott innlegg í þá vinnu sem þarf að fara fram varðandi stöðu landsbyggðarinnar og til þess að rétta hag hennar. Það er stór liður þarna inni sem flm. leggur mikla áherslu á og hefur krufið til mergjar, þ.e. þungaskatturinn. Hann er áhyggjuefni allra sem stunda atvinnurekstur úti á landi, það er nákvæmlega sama hvert maður kemur, og hefur óánægja með verð á þessari þjónustu aukist eftir því sem stærri hluti flutninganna hefur flust upp á vegina og færri eru í samkeppninni um að veita þessa þjónustu. Það er alveg sama hvort um er að ræða fyrirtæki í framleiðslu sem þurfa hráefnisaðföng og síðan að senda frá sér vöruna eða menn sem vinna úr hráefnum á staðnum og þurfa að senda vöruna inn á markað hér. Allir kvarta undan því að þetta sé orðinn óheyrilega stór kostnaðarliður í rekstri þeirra, þ.e. flutningsgjöldin, og þungaskatturinn stigmagnast og leggst með auknum þunga á vörur eftir því sem þær eru fluttar lengra frá aðalinnflutningshöfn okkar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er réttlætismál sem verður að taka á og gera heildstæðar tillögur um þannig að menn geti sæmilega vel við unað.

Ég vona, virðulegi forseti, að tillagan fái góða umfjöllun í nefnd og mun gera mitt til að vinna að framgangi þeirra tillagna og þeirrar hugsunar sem kemur fram í tillögunni.