Sparisjóðir og bankaþjónusta

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 13:53:12 (1646)

2002-11-20 13:53:12# 128. lþ. 34.1 fundur 291. mál: #A sparisjóðir og bankaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tel að menn séu óþarflega æstir í þessari umræðu því að við þessu er í sjálfu sér ósköp einfalt svar og það lét ég koma fram í máli mínu áðan. Það er ekki hægt að gera sérstakar kröfur á þessar tvær bankastofnanir, þessa tvo banka umfram aðra banka. Þannig er það á hinum frjálsa markaði. Og þegar hv. þm. koma hér upp og halda því fram að ég hafi ekki skilning á aðstæðum á landsbyggðinni, þá finnst mér það mjög ósanngjarnt vegna þess að ég hef búið á landsbyggðinni alla mína tíð. Mér finnst að hv. þm. ættu að nota einhver önnur rök til að niðurlægja mig ef þeir hafa sérstakan áhuga á því.

En það er þetta hvernig ég geti tryggt þjónustu. Ég get ekki tryggt þjónustu en mér þykir það gott að þeir sem hafa keypt bankana eða stóran hlut í bönkunum upp á síðkastið hafa haldið því fram að þeir ætli ekki að fara í neina grundvallarbreytingu á rekstri þessara banka. Það finnst mér mjög mikilvægt.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sagði áðan að bankarnir hefðu jafnvel staðið sig illa fyrir sölu þeirra þannig að það er ekki eins og þetta hafi allt saman verið slétt og fellt á þeim tíma sem ríkið átti bankana. En höfum það líka í huga að á þeim tíma þurfti ríkissjóður að setja milljarða inn í Landsbankann vegna þess að eigið fé skorti. Sá tími er liðinn. Nú höfum við selt bankana. Við erum með 25 milljarða kr. sem ríkissjóður getur notað í önnur verkefni sem eru mikilvægari því að í þessu tilfelli geta einkaaðilar, einstaklingar, rekið banka. Þannig er það úti um allan heim og það hlýtur að vera hér á Íslandi líka.