Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 13:55:32 (1647)

2002-11-20 13:55:32# 128. lþ. 34.2 fundur 301. mál: #A erfðabreyttar lífverur# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég hef beint þremur spurningum til hæstv. landbrh. um erfðabreyttar lífverur. Á svipuðum tíma og þessi fyrirspurn var lögð fram og henni dreift í þinginu lagði ég raunar líka fyrir hæstv. umhvrh. nokkrar fyrirspurnir um erfðabreytt matvæli og erfðabreyttar lífverur. Við þeim fyrirspurnum óskaði ég skriflegra svara þar sem kannski væri um eilítið flóknari hluti að ræða, enda heyra þessi mál um erfðabreytingar strangt tekið undir umhvrh. og reglugerðir þær sem eru í gildi á þessu sviði hafa verið gefnar út af umhvrn. í samræmi við lög um erfðabreyttar lífverur. Engu að síður koma þessi mál inn á borð landbrn. því að hér er auðvitað um að ræða hráefni í matvæli. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í tvo áratugi eða meira hefur mikið verið um það rætt og jafnvel um það deilt hvort erfðabreytingar séu böl eða búbót fyrir okkur og víða í nágrannalöndum okkar geysa mjög miklar deilur um erfðabreytingar. Nágrannaþjóðir okkar hafa velflestar ef ekki allar sett lög um merkingar á erfðabreyttum matvælum en Íslendingar hafa reyndar ekki enn þá sett þær reglur sem nauðsynlegar eru til þess að slíkt gangi í gildi hér á landi og er sannarlega þörf á því að við höldum vöku okkar í þeim efnum og að stjórnvöld fái það aðhald sem nauðsynlegt er til þess að neytendur á Íslandi fái að búa við sambærilegar reglur og sambærilegt umhverfi og neytendur í nágrannalöndum okkar.

Í landbúnaðarframleiðslu eru sömuleiðis notaðar vörur sem gætu mögulega innihaldið erfðabreyttar afurðir og þess vegna tel ég nauðsynlegt að hæstv. landbrh. svari okkur því hversu mikið sé um það að dýrafóður, sáðvara og önnur aðföng landbúnaðarins innihaldi erfðabreyttar lífverur eða afurðir framleiddar úr erfðabreyttum lífverum og hvernig þá sé háttað auðkenningu og merkingu slíkra aðfanga.

Í öðru lagi tel ég eðlilegt að hæstv. landbrh. svari því hvort þess sé að vænta að sérstakar aðgerðir verði hér uppi hafðar til að tryggja stöðu lífrænnar ræktunar hér á landi með tilliti til erfðabreyttra lífvera þar sem alþjóðlegt bann er í gildi við notkun þeirra við lífræna landbúnaðarframleiðslu.

Í þriðja og síðasta lagi spyr ég hvort uppi séu áform í landbrn. um sértækar aðgerðir til að koma í veg fyrir hugsanlega erfðamengun á lífríki Íslands af völdum erfðabreyttra lífvera.

Allar eru þessar spurningar í raun og veru sprottnar af stefnumörkun um sjálfbæra þróun en eins og við þekkjum hefur ríkisstjórnin gefið út skýrslu um velferð til framtíðar þar sem þess er getið að öryggis í þessum málum hljóti að verða að gæta.