Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 13:58:48 (1648)

2002-11-20 13:58:48# 128. lþ. 34.2 fundur 301. mál: #A erfðabreyttar lífverur# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Svar við fyrstu spurningu er á þá leið að áfangaeftirlitið hefur eftirlit með innflutningi á öllu fóðri og sáðvöru sem flutt er til landsins, samanber lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og reglugerðum sem settar hafa verið samkvæmt þeim.

Faglegt skjalaeftirlit er haft með öllum innflutningi á sáðvörum. Óheimilt er að flytja til landsins, framleiða eða pakka hér á landi fræi nema tilkynna það fyrst og láta skrá það hjá aðfangaeftirlitinu. Ef fram kemur við innflutning að um erfðabreytta sáðvöru sé að ræða eða grunur vaknar um að svo sé er sú vinnuregla viðhöfð að aðfangaeftirlitið tilkynnir Hollustuvernd ríkisins um málið og innflutningur er ekki heimilaður þar til ákvörðun hefur verið tekin um framgang málsins. Hollustuvernd ríkisins sér um framkvæmd reglna um erfðabreytta sáðvöru og leyfisveitingar í því sambandi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur og reglugerð um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera við þau lög. Þessar reglur eru settar með hliðsjón af EES-samningnum.

[14:00]

Engin erfðabreytt sáðvara hefur verið flutt til landsins svo vitað sé enda innflutningur að mestu bundinn við fræ grasa til fóðurgerðar og fræ af káltegundum, bæði til matjurtaræktunar og fóðurframleiðslu á tegundum sem ekki hefur verið erfðabreytt. Þetta hefur ekki verið sannprófað með greiningu á sýnum, enda ekki reglur í gildi sem kveða á um það. Fæstar þeirra tegunda þar sem erfðaefni hefur verið breytt vaxa hér á landi nema í gróðurhúsum og hafa ekki verið fluttar inn sem fræ.

Ekkert fræ af erfðabreyttum plöntum er ræktað hér á landi. Ekkert lífrænt fræ hefur verið flutt til landsins. Fylgst er með þessu hjá aðfangaeftirlitinu. Fyrir liggur að endurskoða reglur um sáðvörueftirlit í ljósi endurskoðaðra reglna Evrópusambandsins um eftirlit á þessu sviði sem verið er að taka inn í EES-samninginn. Í framhaldi af ofangreindum breytingum þarf að endurskrifa reglugerð um eftirlit með sáðvörum. Í þeirri vinnu verður væntanlega tekið mið af og sett inn ákvæði um eftirlit með erfðabreyttri sáðvöru.

Hvað fóðrið varðar eru engar reglur í gildi um innflutning á erfðabreyttu fóðri til landsins. Óheimilt er að flytja til landsins, framleiða eða pakka hér á landi fóðri nema tilkynna það fyrst og láta skrá það hjá aðfangaeftirlitinu. Aðfangaeftirlitið hefur faglegt skjalaeftirlit með öllum innflutningi á fóðri eins og með sáðvöru. Þess hefur ekki verið krafist að upp sé gefið hvort um erfðabreytt fóður sé að ræða eða ekki. Fóður sem flutt er til landsins, t.d. frá Bandaríkjunum, svo sem maís- og sojamjöl, er meira og minna erfðabreytt. Ekki hefur verið fylgst með þessu með greiningu á sýnum, enda ekki kveðið á um það í reglum. Það má því reikna með að í flestöllum fóðurblöndum sem notaðar eru hér á landi séu að einhverju leyti erfðabreyttar afurðir.

Ekkert lífrænt fóður hefur verið flutt til landsins svo vitað sé samkvæmt upplýsingum aðfangaeftirlitsins. Aðfangaeftirlitið hefur tekið þátt í starfi norrænnar nefndar um sýnatöku og greiningar á erfðabreyttu fóðri og sáðvörum. Sýni vegna þessa samstarfs staðfestir að maís sem fluttur er til landsins frá Bandaríkjunum er erfðabreyttur. Eingöngu er um erfðaefni að ræða sem leyft er á EES-svæðinu.

Hjá Evrópusambandinu er verið að setja reglur um erfðabreytt fóður eða fóður úr efnum úr erfðabreyttum lífverum og rekjanleika á merkingu þess. Einnig er verið að setja þar almennar reglur um erfðabreytt fóður. Þessar reglur verða ef að líkum lætur teknar upp í EES-samninginn og inn í íslenska löggjöf á næsta ári. Samkvæmt ofanskráðu er verið að vinna í þessum málum og reglur um eftirlit, rekjanleika og merkingar á fóðri taka væntanlega gildi hér á næsta ári.

Ekki eru áformaðar sértækar aðgerðir til að tryggja stöðu lífrænnar ræktunar hvað varðar erfðabreyttar lífverur umfram það sem reglugerð kveður á um. Reglugerðin leggur bann við notkun erfðabreyttra lífvera í lífrænni framleiðslu en bent er á að bann þetta tekur einnig til efna sem framleidd eru úr eða framleidd af erfðabreyttum lífverum.

Síðasta spurningin er hvort uppi séu áform í landbrn. um sértækar aðgerðir til að koma í veg fyrir hugsanlega erfðamengun í lífríki Íslands af völdum erfðabreyttra lífvera. Ég verð að segja að í dag er ekki í gangi nein stefnumörkun um aðgerðir í landbrn. (Forseti hringir.), aðrar en þær sem ég hef rakið hér að framan, til að koma í veg fyrir hugsanlega erfðamengun í lífríki Íslands.

Hæstv. forseti. Tíminn er liðinn.