Lyfjagjöf til of feitra barna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:37:37 (1663)

2002-11-20 14:37:37# 128. lþ. 34.5 fundur 223. mál: #A lyfjagjöf til of feitra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v., Sigríður Ingvarsdóttir, hefur beint til mín fyrirspurn um lyfjagjöf til of feitra barna, hversu mörg börn séu á lyfjum við fylgikvillum offitu og hvaða úrræði önnur en lyfjagjöf séu tiltæk fyrir þessi börn.

Það er ljóst að of feitum og of þungum börnum hefur farið fjölgandi undanfarin ár og hefur nýlega mátt heyra um niðurstöður könnunar sem gerð var í nokkrum skólum á höfuðborgarsvæðinu sem styðja þessar fullyrðingar. Einnig hefur mátt heyra uggvænlegar niðurstöður úr erlendum rannsóknum frá Vesturlöndum, einkum Bandaríkjunum, um aukinn fjölda of feitra barna og ungmenna.

Samkvæmt upplýsingum landlæknisembættisins mun lyfjameðferð ekki vera notuð gegn fylgikvillum offitu hjá börnum. Lyfjameðferð til að meðhöndla offitu hjá börnum hefur ekki reynst gagnleg og er því ekki notuð. Hins vegar er á ýmsan hátt verið að sinna börnum sem eru of feit, bæði í heilsugæslunni og í sérhæfðri þjónustu. Einnig hafa einkaaðilar boðið meðferðarúrræði fyrir of feit börn. Fullorðnir eru hins vegar settir á lyfjameðferð vegna offitu og fylgikvilla hennar og má oft rekja þann vanda til æskuára viðkomandi.

Á vegum landlæknisembættisins er starfandi vinnuhópur sem vinnur að gerð leiðbeininga um meðferð vegna offitu barna og byggir hann störf sín á vísindalega staðfestum rannsóknum. Niðurstaðna vinnuhópsins er að vænta fyrir árslok.

Ofþyngd og offita barna er vandamál sem hv. þm. vekur réttilega athygli á með fyrirspurn sinni. Mikilvægt er að leita allra leiða til að fyrirbyggja ofþyngd og offitu barna, bæði vegna almennrar líðanar þeirra, heilsufars og félagslegrar stöðu, en börn þessi verða oft fyrir stríðni eða einelti. Einnig þarf að huga að þessu vegna hættu á offitu seinna á lífsleiðinni með tilheyrandi alvarlegum fylgikvillum. Sem betur fer eru margir áhugasamir um að leita þessara leiða, bæði innan heilbrigðisþjónustunnar og utan hennar. Vandamálð er stórt og virðist vaxandi. Aðferðir sem gagnast í þessari baráttu eru sífellt í þróun. Mikilvægt er því að allir leggist á eitt. Ábyrgð foreldra er afgerandi í því samfélagslega átaki sem nauðsynlegt er til að árangur náist.

Herra forseti. Ég vona að ég hafi hér með svarað fyrirspurn hv. þm.