Lyfjagjöf til of feitra barna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:42:15 (1665)

2002-11-20 14:42:15# 128. lþ. 34.5 fundur 223. mál: #A lyfjagjöf til of feitra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi sagði að forvarnir, fræðsla og hreyfing skiptu máli í þessu sambandi. Ég er mjög sammála því. Þetta mál kemur inn á hið stóra svið forvarna. Það er mikil nauðsyn á því að samræma kraftana í þeim efnum þannig að sjálfar forvarnirnar, fræðslumál, þ.e. að þessir þættir séu bundnir saman. Þetta er eitt af verkefnum hinnar svokölluðu lýðheilsumiðstöðar sem ég flutti frv. um á fyrra þingi og mun vonandi flytja á þessu þingi, en það frv. er aftur til meðferðar í stjórnarflokkunum núna. Ég tel mikla nauðsyn á að heildarskipulag sé á þessum málum án þess að stigið sé á tærnar á áhugasömu fólki sem vill taka þátt í og hrinda af stað forvarnaverkefnum. Manneldisstefnan er náttúrlega einn stór þáttur í þessu. En ég held að hinn almenni andi í samfélaginu hafi mikið að segja um þetta, þ.e. að það sé hluti af hinu daglega lífi að hreyfa sig og forðast þar með offitu og þá kvilla sem henni fylgja.