Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:24:23 (1741)

2002-11-27 11:24:23# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:24]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. er eðlilegt að spyrja hv. formann fjárln. hvort hann sé ósammála þeirri fullyrðingu að rammarnir bresti um leið og fjárlagafrv. hefur verið lagt fram á Alþingi. Það liggja fyrir því skýr rök, m.a. í nokkuð vandaðri skýrslu frá Ríkisendurskoðun. Þar eru einmitt mörg dæmi sýnd um að rammarnir bresta. Þess vegna var ég, herra forseti, að vona að hv. þm. ætti við að það þyrfti að halda betur utan um rammana og að rammarnir væru settir með það fyrir augum að þeir héldu allt til loka.

Það er aðeins eitt atriði til viðbótar, herra forseti, sem mig langar að spyrja hv. þm. um, þ.e. varðandi það þegar hann fjallar um afleiðingar lausatakanna á efnahagsmálum undanfarinna ára. Málið snýst um hið vaxandi atvinnuleysi og hinn mikla samdrátt í samfélaginu. Hv. þm. fullyrti að ekki væri vá fyrir dyrum í þeim efnum. Vissulega vonum við að rétt sé en hins vegar er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þm. hvað hann eigi við með vá. Hvaða prósentutala er í atvinnuleysi þegar vá telst fyrir dyrum að því leyti?