Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:07:45 (1754)

2002-11-27 14:07:45# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson telur greinilega að hann sé sloppinn úr prófkjörsbaráttunni á Norðurlandi vestra. Hann sagði að hérna hefði verið jákvæður ríkisbúskapur. Hvernig hefur hann fengist? Með sölu eigna. Með sölu arðbærra eigna sem hafa staðið undir þjónustu, á Vestfjörðum og um allt land, með sölu banka og sparisjóða sem gengu inn í bankana. Með herkjum tókst að stöðva sölu Landssímans. Ég er ekki viss um, herra forseti, að Vestfirðingar mundu gefa mikið fyrir þennan boðskap ellegar þegar hann fer að skjóta að Hafrannsóknastofnun hér fyrir rangláta stefnu í fiskveiðistjórn sem flokkur hans ber ábyrgð á.

Virðulegur forseti. Ætlar hv. þm. að bera sama mál á borð fyrir vestfirska kjósendur? Ætlar hann líka að bera á borð þann mismun í fjárlagafrv. varðandi rekstrarkostnað sjúkrahúsa þar sem gengið er freklega á sjúkrahúsin á landsbyggðinni? Ætlar þessi hv. þm. að bera það á borð Vestfirðinga?