Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 16:07:32 (1780)

2002-11-27 16:07:32# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir jákvæðar undirtektir varðandi ýmislegt sem fram kom í ræðu minni. Ég vil aðeins ræða, varðandi rammafjárlögin, þau orð hans að taka þyrfti upp náið samstarf við ráðherra og ráðuneyti. Hann fjallaði og um tenginguna við fjárlagaferlið og hvenær fjárln. sem slík ætti að koma að gerð fjárlagafrv.

Ég vil taka undir það að ég held að óhjákvæmilegt sé að þetta sé gert með þeim hætti sem hv. þm. nefnir, þ.e. í nánu samstarfi og eðlilegt væri að fjárln. kæmi fyrr að ferlinu. Í fljótu bragði tel ég ekkert óeðlilegt að vorið gæti verið hentugur tímapunktur í því sambandi. Ég freistast hins vegar til að draga þá ályktun af orðum hv. þm. að eitthvað hafi skort á þetta nána samstarf. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort það sé rétt ályktun af minni hálfu um ástæðuna fyrir því að fylgja ekki þessu vinnulagi. Ekki er að heyra annað en hv. þm. hafi gífurlegan áhuga á að taka upp slíkt vinnulag og hann nefnir það sérstaklega í þessu sambandi að það verði ekki gert öðruvísi en með nánu samstarfi við ráðherra og ráðuneyti. Ég spyr því hv. þm.: Skortir áhuga á þessu nána samstarfi í ráðuneytinu eða skortir frumkvæði af hálfu meiri hluta nefndarinnar til að koma þessu fyrirkomulagi á?