Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:23:37 (1792)

2002-11-27 18:23:37# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:23]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Enn vil ég halda því fram að hv. þm. sé að misskilja orð mín. Öll þau verkefni sem fjárln. hefur fjallað um eru örugglega svo faglega unnin og með svo ábyrgu og góðu fólki á bak við að sómi er að. (ArnbS: Nú?) Ég fullyrði það og um það deilum við ekki, alls ekki.

Ég er hins vegar að gagnrýna það --- setjum dæmið upp þannig að fjárln. Alþingis tæki að sér að úthluta styrkjum til leiksýninga. Eitt árið yrði það bara fjárln. sem ákvæði það hvort Vesturport fengi að setja upp Rómeó og Júlíu eða leikhópurinn Á senunni Hinn fullkomna jafningja eða Hafnarfjarðarleikhúsið Gretti eða Möguleikhúsið Söguna um Mókoll. Þá fullyrði ég, herra forseti, þó að allar umsóknir frá þessum leikhópum séu faglega unnar, allar fjárhagsáætlanir fullkomnar, að þá efast ég um hæfni fjárln. til að meta þau verkefni. Ég treysti hins vegar leiklistarráði fullkomlega sem menntmrh. og ráðuneytið treystir fyrir þessari úthlutun, ég treysti leiklistarráði fullkomlega til að úthluta fjármunum til leiksýninganna.

Það eru þessir hlutir sem ég er að gagnrýna. Við skulum hafa úthlutanirnar á faglegum grunni en ekki tilviljanakenndum grunni fjárln. Ég fullyrði líka, herra forseti, af því að ég hef farið í gegnum þessi verkefni á vegum menntmn., við höfum fengið fjöldann allan af umsóknum til okkar í menntmn., við höfum farið yfir þær og þetta eru gífurlega metnaðarfullar umsóknir. Við höfum síðan metið þær eftir okkar faglega ,,competence`` svo ég leyfi mér að nota útlent orð, herra forseti, og við höfum síðan skilað einhverjum tillögum til fjárln. Hún hefur kannski farið að einhverju leyti eftir því sem menntmn. hefur lagt til og virt þannig hina faglegu umsögn menntmn. En hvað gerist síðan í fjárln.? Hún stækkar allt í einu pottinn. Og þá fær menntmn. ekkert að vera með í úthlutuninni. Þá er það bara fjárln. sem má sitja með stækkaðan pott og úthluta til þeirra verkefna sem fjárln. hentar.