Úrbætur í jafnréttismálum

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:53:35 (1815)

2002-11-28 10:53:35# 128. lþ. 38.4 fundur 129. mál: #A úrbætur í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef ekki áform uppi um að breyta jafnréttislögum og þori ekki að heita stuðningi við þingmál hv. fyrirspyrjanda.

Hér er kynbundinn launamunur, það er staðreynd. Það dregur sem betur fer úr honum og skýrslur sýna að hjá sumum stéttum er hann nánast horfinn. Annars staðar í þjóðfélaginu viðgengst hann.

Hvað varðar dóma Hæstaréttar og gagnrýni á að þeir séu of vægir, og dómar yfirleitt í kynferðisafbrotamálum, er það á málasviði hæstv. dómsmrh. og eðlilegt að beina til hennar ummælum um það efni.

Ég gat ekki um það í fyrri ræðu minni að starfandi er vinnuhópur á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og Eystrasaltsríkjanna um upplýsingaherferð um mansal til kynlífsþrælkunar. Ísland er þátttakandi í þessu verkefni, og eins og kunnugt er er markmið verkefnisins að auka þekkingu og vitund almennings um vandamál sem geta tengst mansali. Sérstakur ráðgjafarhópur er að störfum hér á landi og ráðgert er að halda sérstaka ráðstefnu um efnið á fyrri hluta næsta árs.