Samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:53:37 (1839)

2002-11-28 11:53:37# 128. lþ. 38.9 fundur 292. mál: #A samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er alveg auðséð að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er kominn í sitt gamla far í þingsölum. En ég tel afar óeðlilegt að færa einhverjar umræður úr bæjarstjórn Vestmannaeyja hingað í þingsali. Það vantar auðvitað sárlega (LB: Situr þú í bæjarstjórn? Situr samgrh. í bæjarstjórn ...?) fulltrúa úr bæjarstjórn Vestmannaeyja til þess að takast á við hv. þm. um þau málefni sem mér sýnist að hann sé að reyna að færa inn í þingsali.

Staðreynd málsins er sú sem kom fram í svari mínu að við buðum út þjónustu Herjólfs. Við fengum tilboð sem leiddu síðan til þess að hægt var að auka þjónustuna þegar litið var til þess að sú krafa var uppi eftir að nefnd sem ég skipaði hafði skilað áliti. Hún komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að fjölga ferðum og það var gert. Það var gert með nýjum samningi. Sá samningur er að sjálfsögðu byggður á því útboði sem fór fram á sínum tíma og það er í alla staði óeðlilegt og engin ástæða til þess fyrir hv. þingmann að gera það tortryggilegt.

Aðalmálið er að þjónustan hefur verið aukin og það er rangt hjá hv. þm. að reyna að gera þetta tortryggilegt ... (LB: Af hverju sýnirðu þá ekki samninginn ...?) (Forseti hringir.) að reyna að gera það tortryggilegt hver ráðstöfun þessara fjármuna er. Ráðstöfunin gengur út á að fjölga ferðum og hvaða athugasemdir gerir hv. þm. við það? Þetta er eitt af ótal mörgum málum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson notar til þess að reyna að gera hluti tortryggilega.

Ég er þess hins vegar fullviss að hann ber hag Eyjamanna fyrir brjósti og það er af hinu góða. Hann leggur áherslu á að auka þessa þjónustu og út á það gengur samningurinn, þ.e. að bæta þjónustuna. Ég vona svo sannarlega að í lokaskýrslu starfshópsins, sem ég hef gert grein fyrir að var skipaður, verði lagðar fram leiðir um enn (Forseti hringir.) bætta og betri þjónustu í samgöngumálum Eyjamanna.