Barnabætur

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:18:17 (1848)

2002-11-28 12:18:17# 128. lþ. 38.11 fundur 145. mál: #A barnabætur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:18]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst hæstv. fjmrh. ekki mjög djarfur í þessum málum. Ég verð að segja að í mörgum tilfellum, t.d. við greiðslu fæðingarorlofs, er miðað við tekjur ársins á undan. Ég hef ekki orðið vör við að bíða verði með það fram yfir það, meðan fólkið er í fæðingarorlofi, að hægt sé að ákveða því tekjur vegna þess að ekki liggi fyrir tekjur yfirstandandi árs. Það hlýtur að vera hægt að finna aðrar viðmiðanir. Það hefur verið gert, meira að segja fyrir meira en þremur árum, áður en þessi regla var tekin upp í sambandi við barnabætur.

Það mætti t.d. greiða út ótekjutengda hlutann og greiða síðan tekjutengda hlutann þegar skattframtal liggur fyrir, sé nauðsyn á að fara svo varlega. Ég vil benda á að ég þekki til fólks sem eignaðist fjölbura fyrr á árinu og lenti í miklum fjárhagsvandræðum. Þetta var ekki beinlínis pantað. Þau fá engar barnabætur fyrr en í febrúar.

Ég man að í september birtist í Morgunblaðinu mynd af fólki. Það voru tvenn hjón sem höfðu eignast þríbura í sömu vikunni og tvenn hjón sem höfðu eignast tvíbura. Mér datt fyrst í hug þegar ég leit á myndina, aumingja fólkið. Það fær ekki barnabætur fyrr en í febrúar. Þetta er heilmikið fjárhagslegt vandamál fyrir fólk, að lenda t.d. í að eiga þríbura og þurfa að borga allan kostnað sem því fylgir. Ef börnin fæðast t.d. í mars er þetta algerlega óbætt þangað til í febrúar. Það eru bara ekki allir sem í þessu lenda jafn vel stæðir.