Stuðningur við kvikmyndagerð

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:24:48 (1851)

2002-11-28 12:24:48# 128. lþ. 38.12 fundur 293. mál: #A stuðningur við kvikmyndagerð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:24]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er í fyrsta lagi spurt: ,,Hversu margar umsóknir um fjárstuðning við kvikmyndagerð hafa borist til umhverfisráðuneytisins á kjörtímabilinu, hverjir hafa átt þar hlut að máli og hvernig afgreiðslu hafa þessar umsóknir hlotið?``

Því er til að svara að frá miðju ári 1999 til 1. nóvember 2002 hafa alls borist 20 umsóknir um styrkveitingar vegna kvikmyndagerðar til ráðuneytisins. Hér er líka spurt hverjir hafi þar átt hlut að máli og hvernig afgreiðslu þessar umsóknir hafi hlotið. Ég ætla að gera grein fyrir því hverjir hafa átt þar hlut að máli og mun lesa upp fyrst þá aðila sem hafa fengið styrk. Tíu hafa fengið styrk: fjallvinafélagið Kári, Ís-land ehf., Hrafn Gunnlaugsson, Hugsjón ehf., Hvítafjallið -- Niflungar ehf., Af hverju ehf., Landmark -- kvikmyndagerð ehf. hefur fengið tvo styrki, Köfunarskólinn ehf. og Friðrik Weisshappel.

Þá ætla ég að lesa upp þá sem hefur verið hafnað en það eru sjö aðilar: Það eru Marodd Film ehf., Kvikmynd/Þorsteinn Jónsson, Draumasmiðjan ehf., Steinn Kárason, Köfunarskólinn ehf., Lífshættir íslenskra ferskvatnsfiska, Sagafilm ehf., Köfunarskólinn ehf.

Þrjár umsóknir eru í skoðun í ráðuneytinu. Þær eru frá Kvik ehf., Seylunni ehf. og Astma- og ofnæmisfélaginu.

Í öðru lagi er spurt: ,,Fjallar kvikmynd sú sem ráðherra hefur ákveðið að styrkja, ,,Ísland í öðru ljósi``, á einhvern hátt um mannvirkjagerð á hálendi Íslands eða hvert er megininntak myndarinnar?``

Það er rétt sem hér kom fram að ég hef áður sagt og segi hér enn að kvikmyndin Ísland í öðru ljósi er gerð í framhaldi af kvikmyndinni Reykjavík í öðru ljósi, sem Reykjavík sem menningarborg styrkti. Sú mynd vakti verðskuldaða athygli vegna þess hve skemmtileg og ögrandi hún var og hvernig hún fjallaði um skipulagsmál í Reykjavík, m.a. með tæknibrellum. Hún vakti mjög mikla umræðu um skipulagsmál.

Ég hef verið að furða mig á því að við höfum fjallað um skipulagsmál á Íslandi í frekar þröngum skilningi. Þess vegna fannst mér mjög áhugavert þegar þetta var kynnt fyrir mér, að meiningin væri að gera aðra mynd, ef til þess fengjust styrkir, Ísland í öðru ljósi, sem mundi fjalla um umhverfis- og skipulagsmál. Í þeirri mynd er meiningin að tvinna saman nýjustu kvikmynda-, myndbands- og tölvutækni til að skapa nýja sýn á fortíð, nútíð og framtíð. Í myndinni má nota ímyndunaraflið til að sviðsetja framtíðina með tæknibrellum og áhorfendum gefst tækifæri til að kynnast nýjum hugmyndum og horfa fram á við á nýrri öld. Myndin á að fjalla um hvernig við skipuleggjum landið og nýtum þannig að fólk vilji búa hér í framtíðinni og það verði öðrum löndum fyrirmynd hvað mannlíf og lífsgæði snertir.

Nákvæmlega um hvað myndin fjallar í smáatriðum er mér ekki kunnugt, enda hefur viðkomandi kvikmyndagerðarmaður nokkurt frelsi um það hvernig hann tekur á þessu viðfangsverkefni. Það kemur ekki bein skipun úr umhvrn. varðandi það í smáatriðum. Okkur þótti þetta það spennandi að við ákváðum að styrkja þessa mynd um þessa upphæð.

Það sem ég veit helst um þetta mál er að verið er að vinna við þessa kvikmynd. Mér er tjáð að Hrafn Gunnlaugsson hafi m.a. farið upp á hálendið, m.a. með Ómari Ragnarssyni skilst mér, eða flogið yfir og verið sé að vinna úr þeim tökum. Hugsanlega er þar fjallað um virkjanamál. Ég veit það ekki nákvæmlega á þessari stundu, hve mikið er fjallað um það og í hvaða samhengi.

Hér er ekki um áróðursmynd að ræða eins og mér heyrðist hv. fyrirspyrjandi ýja að heldur er þetta mynd þar sem ímyndunaraflinu hefur verið gefinn laus taumurinn og settar eru fram ýmsar hugmyndir um hvernig skipuleggja megi Ísland í framtíðinni og hvernig við höfum skipulagt það hingað til. Eins er velt upp spurningum um hvað hefði gerst ef við hefðum skipulagt það öðruvísi.

Ég lít björgum augum fram á að fá að sjá þessa mynd. Ég vona að hún verði góð og við hljótum sóma af. En það er meiningin að ríkissjónvarpið eigi að sýna hana einhvern tíma í byrjun næsta árs. Ég vona að það standist. Mér skilst að ríkissjónvarpið hafi keypt sýningarréttinn þó að ég hafi ekki kannað það sérstaklega.