Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 14:29:22 (1868)

2002-11-28 14:29:22# 128. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Tillagan felur í sér að tveir liðir sem báðir flokkast undir framlög Íslands til þróunaraðstoðar eða þróunarsamvinnu verði hækkaðir um samtals 300 millj. kr. Það er annars vegar liðurinn Þróunaraðstoð undir verkefnum Þróunarsamvinnustofnunar um 200 millj. og hins vegar liðurinn 03-391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, undirliður 1.30 Mannúðarmál og neyðaraðstoð verði hækkaður úr þeim heilu og rausnarlegu 18,5 millj. kr. sem ríkisstjórn Íslands og meiri hluti hennar leggur til í 118,5 millj. kr. Það þarf ekki að minna hv. þingmenn á hversu skammarlegt framlag Íslands er til friðsamlegrar, borgaralegrar og uppbyggilegrar þróunarsamvinnu í heiminum en þar vermir Ísland skammarkrókinn ásamt með Bandaríkjunum og leggur lægsta hlutfall þjóðartekna af öllum velmegunarríkjum innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar, eða rétt liðlega 0,1% af landsframleiðslu til þessara verkefna og er tæpast hægt að verða stoltur af. Þetta mundi því örlítið, herra forseti, laga þá hörmulegu frammistöðu Íslands ef samþykkt yrði.