Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 17:24:59 (1894)

2002-11-28 17:24:59# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, LB
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[17:24]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það verður að segja eins og er, að það er dálítið sérstætt eftir að hafa í gær hlýtt á ræður hæstv. fjmrh., frá fulltrúum í meiri hluta fjárln. og fleiri stjórnarliðum, sem hafa lýst á hendur sér slíkri fjármálasnilld að leitun er að öðru eins. Það er dálítið sérstætt að daginn eftir að menn hafa óumbeðið lýst þessum afrekum á hendur sér skuli hæstv. fjmrh. koma inn í þingið og óska eftir, þar sem efnahagslegur stöðugleiki sé í uppnámi, annars væri greinargerðin ekki orðuð á þann hátt sem er, nýjum 1.100 millj. kr. Röksemdafærslan er sú að það sé svo langt síðan gjaldið hafi hækkað, hafi lítið sem ekkert hækkað síðan 1995 og það sé algerlega nauðsynlegt að gjaldið í takt við aðrar verðhækkanir í landinu.

Kannski er þetta enn sérstæðara eftir að hafa hlýtt á ræður gærdagsins og velt fyrir sér niðurstöðu prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir nokkrum dögum. Þar fengu allir þeir sem voru á móti sköttum og gjöldum þessa fínu kosningu og flugu upp lista. En prófkjörinu er ekki fyrr lokið en hæstv. fjmrh. segir að sterkt vín og tóbak hafi ekki hækkað svo lengi að nú sé algerlega nauðsynlegt að ná í 1.100 millj. í ríkissjóð því að ella mundi efnahagslegur stöðugleiki í landinu vera í hættu.

Virðulegi forseti. Þegar þetta mál kom fyrir áðan greiddi þingflokkur Samfylkingarinnar atkvæði gegn því að frv. yrði tekið fyrir með því hraði sem hér um ræðir. Það er ekki að ástæðulausu því að það kemur líka fram í greinargerð að þessi 0,3% hækkun á neysluvísitölunni hafi miklu meiri áhrif heldur en hér er gerð grein fyrir. Ef við gefum okkur að skuldir heimilanna séu 500 milljarðar eða svo er ekki ólíklegt að þessi breyting hækki þær skuldir um 1,5 milljarða. Það er ekkert lítið. Það er ekkert óeðlilegt þó að menn vilji gefa sér tíma til að fara yfir hugmyndir af þessum toga þegar þær eru settar fram með þeim hætti sem raun ber vitni. Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum lögðumst við gegn því að málið færi í gegn með slíku hraði.

Ég verð að segja að ég held að það hefði verið miklu skynsamlegra að skoða þetta mun betur og gefa þingmönnum á hinu háa Alþingi betra tækifæri til að fara yfir þessi mál og jafnvel, virðulegi forseti, þó að það mundi leiða af sér örlitla örtröð í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í einn eða tvo daga. Ég held að það væri alveg verið þess virði ef útreikningar mínir eru réttir þó ég hafi ekki haft mikinn tíma til að fara yfir málið. Ef þessar hækkanir koma til með að þýða 1,5 milljarða hækkun á skuldum einstaklinga eða skuldum heimilanna þá er þetta alvarlegra mál en hæstv. fjmrh. vildi vera láta í ræðu sinni.

Líta þarf til fleiri þátta í þessum efnum. Vitaskuld fáum við tækifæri til að ræða þetta mun betur við 2. umr. Þá verður kannski búið að kalla til fólk og sérfræðinga sem geta útskýrt þetta betur fyrir okkur. Eitt af því sem ég held að við verðum líka að hafa í huga er t.d. að það sem ferðaþjónustan hefur líklega gagnrýnt hvað mest er hátt verð á áfengi og oft og tíðum talið að það hafi orðið til þess að ekki hafi verið hægt að fá hingað ráðstefnur. Einnig hefur verið á það bent að þetta sé eitthvað það neikvæðasta sem ferðamenn sjá við landið, þ.e. hið háa verð á áfengi. Auðvitað er það dálítið broslegt í þessu samhengi að þeir sem ruddust fyrir 20 árum til áhrifa og valda, núverandi formaður og varaformaður Sjálfstfl., auk þess mætti til að mynda nefna forstjóra Landsvirkjunar, undir kjörorðinu Báknið burt. En nú þarf að hækka þessi gjöld með hraði sökum þess að þau hafa ekki hækkað svo lengi. Það er með hreinum ólíkindum hvernig menn geta teflt fram misjöfnum málflutningi eftir því hvernig það á við.

Virðulegi forseti. Ég hef sjaldan eða aldrei séð jafnauma röksemdafærslu fyrir nokkrum breytingum og þá sem fylgir í þessari greinargerð og finnst hún í raun ekki hafa verið í neinum takti við það sem sá flokkur hefur boðað sem hæstv. fjmrh. tilheyrir.

Eins og ég sagði áðan þá mun okkur gefast færi á að fara vandlega yfir þessi mál í efh.- og viðskn. Síðan munum við taka góða umræðu um þetta við 2. umr. Við höfum þá kannski náð að afla okkur frekari upplýsinga um þetta mál, hvaða afleiðingar það kann að hafa í för með sér o.s.frv. En það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að það kemur mér mjög á óvart að það muni grafa undan efnahagslegum stöðugleika ríkissjóðs fari þetta mál ekki í gegn með hraði eins og ráða mátti af orðum hæstv. fjmrh. áðan, þá ekki síst þegar það er sett í samhengi við þær miklu sjálfshólsræður og þá umræðu sem hér fór fram í gær.

Virðulegi forseti. Þetta mál þarf miklu betri skoðunar við.