Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 18:38:23 (1902)

2002-11-28 18:38:23# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[18:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ef við missum tökin á fjármálum ríkisins þá grefur það undan efnahagslegum stöðugleika. Við erum að tryggja það m.a. með þessu frv., og ýmsu öðru sem hér er verið að gera, að við höfum full tök á ríkisfjármálunum. Það höfum við að sjálfsögðu. Þess vegna er á þetta minnt í athugasemdum. Það er alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. eða einhvern annan að vera eitthvað að snúa út úr því, gera það að einhverju stórmáli í frv. sem annars er tiltölulega einfalt og auðskilið.

Ég hef ekki reiknað út sérstaklega hver áhrif þessa verða á skuldir heimilanna, vegna þess að það sem skiptir máli varðandi þær er að sjálfsögðu hver heildarþróun vísitölunnar er á árinu en ekki hvernig einstakir liðir innan hennar þróast. Ég gat þess áðan að líkur eru á því að vísitalan muni innan ársins 2002 einungis hækka um 1,9%, langt undir því sem kauplagsþróunin er eða launaþróunin í landinu. Ég hygg að laun almennt í landinu muni hækka um yfir 4% þannig að þarna er um að ræða meira en 2% ávinning í kaupmætti fyrir allan almenning. Það er auðvitað það sem skiptir máli fyrir allan almenning eins og ég hef margoft verið að reyna að segja hér úr þessum ræðustól á undanförnum dögum og vikum.