Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 18:40:12 (1903)

2002-11-28 18:40:12# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[18:40]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það nú vera dálítið stór orð hjá hæstv. fjmrh. sem segir að ef ekki verði aflað nýrra tekna fyrir ríkissjóð þá verði grafið undan efnahagslegum stöðugleika, því annars sé ríkissjóður í vanda. Það segir okkur það að menn hafa einfaldlega eytt um efni fram og ekkert annað. Það er dálítið sérstakt að hæstv. ráðherra skuli viðurkenna það í andsvari að ef ekki verði aflað þessara tekna muni það grafa undan efnahagslegum stöðugleika.

Ég skil hæstv. ráðherra líka mætavel að hann vilji ekki draga fram einstök áhrif þessarar tilteknu hækkunar, en þess í stað reyna að fjalla um heildaráhrifin. Við erum nú aðeins að fjalla um þetta einfalda mál hér eins og hæstv. ráðherra komst að orði og við erum að reyna að átta okkur á því hvaða áhrif afgreiðsla þess einfalda máls hefur. Það er verkefnið okkar núna og við í Samfylkingunni greiddum atkvæði gegn því að málið yrði tekið fyrir á þann hátt sem raun ber vitni, þ.e. með afbrigðum, vegna þess að við viljum átta okkur á afleiðingunum, átta okkur á hvaða áhrif þetta kann að hafa í för með sér. Það er kannski kjarninn í þessu öllu saman.

Ég vil líka mótmæla því að við höfum reynt að dreifa þessari umræðu um of frá kjarna málsins, vegna þess að ég gat ekki betur heyrt í síðari ræðu hæstv. ráðherra sem um margt var ágæt, en að þar hafi hann einmitt fjallað um þá sömu hluti og við höfum verið að ræða í umræðunni í dag. Ég vil mótmæla því harðlega að menn hafi verið að reyna að snúa út úr málinu á einhvern hátt eins og hæstv. ráðherra lét í veðri vaka í ræðu sinni.