Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:25:26 (1954)

2002-12-02 16:25:26# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:25]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að annars vegar er mikill misskilningur á ferðinni hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni og hins vegar tilraun hans til að gera þetta mikilsverða mál tortryggilegt. Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar er þeirrar gerðar að verið er að ganga tryggilega frá heimildum í lögum til gjaldtöku annars vegar hvað varðar skattlagningu og svo hins vegar hvernig á að standa að innheimtu þjónustugjalda vegna eftirlits með skipum. Það er afar mikilvægt að það liggi fyrir.

Á hinn bóginn er verið að reyna að búa til ramma, og það mun hv. samgn. þurfa að skoða mjög vandlega, utan um þetta eftirlitskerfi þannig að það tryggi öryggi annars vegar og hins vegar að það verði ekki dýrara, hvorki fyrir notendur, þ.e. eigendur skipa, né ríkið, en þarf að vera. Út á það gengur allt málið.

Mér finnst að við Íslendingar þurfum að leita leiða til þess að gera eftirlitskerfið hagkvæmt.

Við gerum ekki ráð fyrir í þessari löggjöf að leggja niður eftirlit Siglingastofnunar, fjarri því, en við opnum hins vegar fyrir þann möguleika að skoðunarstofur geti sinnt þessari þjónustu. Vegna hvers? Jú, til þess að útvegsmenn og þeir sem þurfa að kaupa slíkt eftirlit geti leitað hagkvæmra leiða, en eftir sem áður sé fyllsta öryggis gætt. Það er aðalatriði málsins.