Vaktstöð siglinga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 17:10:50 (1970)

2002-12-02 17:10:50# 128. lþ. 43.6 fundur 392. mál: #A vaktstöð siglinga# (heildarlög, EES-reglur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[17:10]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið til umræðu og að hér sé verið að taka heildstætt á ýmsum málum sem varða öryggi og eftirlit með siglingum hér við land. Einkum finnst mér til mikilla bóta að tekið skuli sérstaklega á því að þegar skip koma hér að landi með hættulegan farm eða þegar svo ber undir að ætla megi að vegna aðstæðna geti olíufarmur t.d. mengað strendur eða við strönd eða annað slíkt, þ.e. ef skip væri illa ferðafært af einhverjum orsökum, hvort sem það væri vegna vélarbilunar, veðurs eða annarra orsaka.

Þetta mál er búið að vera lengi til umræðu. Ég minnist þess að fyrir meira en áratug var það tekið upp af sjómannasamtökunum, m.a. Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, þar sem rætt var um siglingaleiðir skipa, sérstaklega olíuskipa, hér að landinu og meðfram ströndum þess og reyndar einnig í dag annarra skipa sem flytja oft hættulegan farm eða hættuleg efni í gámum að landinu. Ég tel því að þetta mál sem hér er flutt inn og það virka eftirlit sem hér er ætlað að taka upp sé til mikilla bóta og vonast vissulega til þess að frv. fái góða og vandaða afgreiðslu á hv. þingi og í samgn.

Það hefur oft verið mönnum mikið áhyggjuefni hvað gæti gerst á miðunum við landið og hvaða áhrif gætu orðið á lífríki sjávar ef svo illa vildi til að t.d. olíuflutningaskip lenti í sjávarháska við suðurströnd landsins og hér yrði mengunarslys á borð við það sem við höfum t.d. frétt af vestur af Spáni á undanförnum vikum. Við höfum svo sem séð fréttir af mörgum fleiri slysum af vítt og breitt um veröldina, einmitt tengdum olíuskipum. Einnig þurfa ákvæði frv. auðvitað að taka til annarra hættulegra efna.

Ég tel að hér sé verið að setja form á gott mál. Vissulega var og er í gildi ákveðin reglugerð um tilkynningarskyldu. Þegar skip leggja úr höfn erlendis og ætla að sigla til Íslands með það sem skilgreint hefur verið hættulegur eða mengandi varningur hefur samkvæmt ákveðinni reglugerð orðið að tilkynna sérstaklega um fyrirhugaða siglingu skipsins og til hvaða hafnar það hygðist leita á Íslandi o.s.frv.

Hér sýnist mér að verið sé að setja þessi mál í heildstæðan eftirlitsbúning og það er ekki neitt nema gott um það að segja að því er mér finnst.

En af því að hér er talað um ,,Digital Selective Calling``, þ.e. stafrænt valkall, vil ég spyrja hæstv. samgrh. hvort hér séu nú komin upp á strandstöðvum við Ísland móttökutæki til þess að taka við stafrænu valkalli á VHF-bylgjunum. Þessi tækni gerir það að verkum að ekki þarf sérstaklega að hlusta eftir henni heldur eiga þessi tæki að ræsa sérstakan móttakara þannig að þegar menn grípa til þess að nota stafrænt valkall eiga þeir að komast í gegn með sín áríðandi skilaboð.

Ég vil þess vegna ítreka þá spurningu hvort þessi móttökutæki séu almennt komin upp í íslenskum strandstöðvum.

Að öðru leyti tel ég að hér sé verið að hreyfa ágætismáli sem menn hafa haft áhyggjur af lengi og talið í raun í mörg ár að nauðsynlegt væri að koma í ákveðið form og ákveðið skipulag, einkum með tilliti til flutnings hættulegra efna að og frá landinu og þess að ákveða siglingar skipa hingað að landinu með tilliti til veðuraðstæðna.

Ég vil líka spyrja hvar það sé á vegi statt að fyrir liggi að t.d. siglingum olíuflutningaskipa megi ekki haga nema með ákveðnum hætti miðað við veðuraðstæður þannig að sem minnst hætta geti orðið af því að þessi skip taka hér land með mengandi farm sinn.