Húsaleigubætur

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:25:14 (2025)

2002-12-03 16:25:14# 128. lþ. 44.12 fundur 43. mál: #A húsaleigubætur# (foreldrar með sameiginlega forsjá o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:25]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til að taka undir efnisatriði þessa frv. sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir mælti fyrir. Þetta snertir ákveðin grundvallaratriði í stefnu okkar jafnaðarmanna sem eru þau að allir hafi jafnan aðgang að því velferðarkerfi sem við höfum sameiginlega byggt upp. Það kemur skýrt fram varðandi húsaleigubætur sem hér eru gerðar að umtalsefni að það er mismunun af hálfu almannavaldsins sem kemur m.a. fram í því að því foreldri sem barnið er ekki með lögheimili hjá en þarf og á að annast barnið til jafns við það foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá, eru ekki gefnir sömu möguleikar á húsaleigubótum og hinu foreldrinu. Þetta er sjálfsagt að leiðrétta og á að leiðrétta eins og hér er lagt til.

Hitt atriðið sem hv. þm. nefndi um námsmenn, þ.e. um þá sem leigja utan stúdentagarða og fá ekki aðgang að húsaleigubótum, er enn og aftur dæmi um mismunun gagnvart þegnum. Eitt aðalatriðið í allri velferðarstefnu er að búa svo um hnútana að við mismunum ekki einstaklingum eftir tilteknum aðstæðum eins og í þessu tilfelli, t.d. eftir því hvar barn er með lögheimili eða hvort námsmenn leigja á stúdentagarði eða utan hans. Þetta er nátengt því sem hv. þm. ræddi hér um áður, þ.e. biðlistum í heilbrigðisþjónustunni, en þeir snerta aftur þetta sama grundvallarhugtak að allir hafi jafnan aðgang að því velferðarkerfi sem við bjóðum upp á. Það er einmitt hægt að sýna fram á að skynsamlegt sé að útrýma biðlistum eða minnka þá verulega og það er þjóðhagslega hagkvæmt í mjög mörgum tilvikum. Það er einnig mjög veigamikið rannsóknarefni einnar sérgreinar vísinda sem kölluð er heilsuhagfræði og hún er einmitt viðfangsefni sem glímt er við t.d. innan Háskóla Íslands.

Sú mismunun sem þarna á sér stað, t.d. varðandi biðlista eða húsaleigubætur, kallar einmitt á kerfi sem leiðir til enn meiri mismununar eins og menn hafa séð innan heilbrigðiskerfisins þar sem forréttindi þeirra sem eiga peninga verða sífellt sterkari, þeirra sem vilja kaupa sér forgang á biðlistunum eins og við höfum séð gerast hér undanfarið eða þeirra sem hafa betri fjárhagslega stöðu til að geta stundað nám og leigt sér herbergi úti í bæ og njóta ekki þess stuðningskerfis sem almannavaldið vill á annað borð veita.

Herra forseti. Þau mál sem hv. þm. talaði hér fyrir lýsa mjög vel grundvallaratriðum í stefnu Samfylkingarinnar. Þau fjalla um það hvernig við viljum bæta velferðarkerfið, hvernig grunnatriði í velferðarkerfinu um jafnan aðgang fyrir alla verða að vera tryggð. Menn verða sífellt að reyna að skoða einstök atriði til að betrumbæta velferðarkerfið áður en það verður holað það mikið að það brestur og hér kemur upp kerfi mismunar og forgangs fjármagns eins og við höfum séð gerast á mjög mörgum sviðum velferðarmála. Við jafnaðarmenn viljum ekki slíkt samfélag.