Hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:16:06 (2051)

2002-12-04 14:16:06# 128. lþ. 46.3 fundur 144. mál: #A hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir framlag þeirra til umræðunnar. Ég er náttúrlega mjög uppnumin yfir þeim áætlunum sem liggja fyrir, að hefja útboð eftir áramótin og byrja á þessari byggingu. Álíka kann að hafa heyrst áður í þessum sal en ég ætla að vona að það sé í höfn. Ég hef samt ekki heyrt hvenær þessi deild verður opnuð fyrir sjúklinga. Það skiptir miklu máli vegna þess að margt fólk líður fyrir að hafa ekki þennan möguleika.

Við þurfum að hugsa um þá sem bíða og hafa engin úrræði. Hvað á að gera fyrir þá? Það líður einhver tími frá útboði og þangað til hægt verður að leggja sjúklinga inn á þessa deild. Ég hef áhyggjur af því fólki sem ég veit að bíður og líður.

Ég kom með uppástungu í fyrri ræðu minni um að fundin yrðu einhver bráðabirgðaúrræði, t.d. að reynt yrði að finna eitthvert afdrep í Sjúkrahúsi Suðurlands sem hægt væri að nýta fyrir hjúkrunarsjúklinga fram að því að þessi deild opnar eða þá eitthvert annað rými. Ég vil jafnframt taka undir það sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði, að það kynni að vera einhver lausn að bæta úrræði með dagvist. Þessu máli er þannig komið að eitthvað verður að gera strax.