Krabbameinssjúkdómar í meltingarvegi

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:58:07 (2069)

2002-12-04 14:58:07# 128. lþ. 46.7 fundur 367. mál: #A krabbameinssjúkdómar í meltingarvegi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Fyrr á þessu ári, á síðasta þingi, var samþykkt á Alþingi ályktun um forvarnir og leit að krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og öðrum sjúkdómum þeim tengdum. Um þetta er að segja til þessa að um þessar mundir á sér stað átak að frumkvæði áhugasamra manna og samstarfsaðila þeirra um aukna vitund fólks, bæði almennings og starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni um einkenni slíkra sjúkdóma og rétt viðbrögð við þeim, bæði af hálfu einstaklinga og heilbrigðisþjónustunnar.

Mér virðist skipta miklu máli að þetta átak, vitundarvakning eins og hinir áhugasömu menn kalla það, verði nýtt til þess að koma á þeim forvörnum og þeirri leit að einkennum þessara sjúkdóma sem ályktuninin kvað á um.

Í annan stað vil ég geta þess að það skiptir miklu máli þegar þetta starf verður hafið að forvarnastarf og leitarstarf verði ekki til þess að teppa eða skerða aðgang sjúklinga sem þegar eru greindir með þessa sjúkdóma þannig að þeir fái áfram að njóta jafngóðrar og öruggrar þjónustu og þeir hafa notið til þessa. Hún hefur verið með ágætum en auðvitað er hætt við því að ef sömu stofnanirnar eiga að sinna hvoru tveggja gæti annaðhvort orðið undir eða aðgengi yrði ekki eins greitt og áður.

Af framangreindum ástæðum legg ég fyrir hæstv. heilbrrh. fyrirspurn um þetta efni sem hljóðar svo:

Hvernig vindur fram undirbúningi að framkvæmd ályktunar Alþingis frá sl. vori um forvarnir og leit að krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og hvenær telur ráðherra að reglulegt forvarnastarf á þessu sviði hefjist?