Krabbameinssjúkdómar í meltingarvegi

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:05:30 (2073)

2002-12-04 15:05:30# 128. lþ. 46.7 fundur 367. mál: #A krabbameinssjúkdómar í meltingarvegi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir greinargóð svör og vil láta í ljós það álit mitt að ég tel að viðfangsefnið sem ályktunin kvað á um sé nokkuð flókið og vandasamt og kemur m.a. fram í því atriði í svörum hæstv. ráðherra að skimun eða leit með þessum hætti hefur hvergi annars staðar farið fram á landsvísu. Þá verður að geta þess að við erum afskaplega fámenn þjóð, svo að verkefnið er ekki eins stórt og viðamikið eða flókið eins og það væri meðal fjölmennari þjóða á heilum meginlöndum. Ég tel samt sem áður að þetta sé ekki óvinnandi verk, síður en svo. Raunar er það svo að skimun eða leit hefur farið fram í öðrum löndum á fjölmennari hópum en okkur Íslendingum.

Rétt er að geta þess að þættir þessa stóra verkefnis eru fleiri en hæstv. ráðherra nefndi. Einn þeirra hefur komið fram í þingsölum áður eða raunar hjá hv. fjárln. Alþingis, þar sem voru erindi um fjárveitingar til svonefndrar kirtilæxlaskrár sem er eitt af grundvallaratriðum þess að hægt sé að ná árangri með þessari leit eða slíkum forvarnaviðbrögðum. Eftir því sem ég hef komist næst hefur ekki orðið úr fjárveitingum a.m.k. í allmörg ár sem læknar brydduðu upp á því máli. Ég vil þess vegna vænta þess að fá nú eða síðar upplýsingar um hvernig það atriði hefur gengið fram.

Það skiptir miklu máli, herra forseti, að við bregðumst til forvarnar við þeim sjúkdómum sem hægt er að verjast. Fram hefur komið að þó þessir sjúkdómar séu tiltölulega tíðir og hafi fram að þessu reynst alvarlegir, liggur líka fyrir sú vitneskja í læknavísindum að þeim er hægt að verjast með réttum viðbrögðum því unnt er að finna frumstig þeirra áður en þeir verða að meinum. Þess vegna er mikilvægt að við bregðumst rétt við og látum ekki dragast að hefja forvarnastarf.

Mér finnst líka skipta gríðarlega miklu máli að nýta mjög virðingarvert og þakkarvert starf áhugasamra einstaklinga sem hafa hafið feiknarlega mikið fræðslustarf, bæði innan og utan heilbrigðisþjónustunnar, til að vekja athygli fólks og vitund um einkenni þessara sjúkdóma og hvernig fólk og heilbrigðisþjónustan getur brugðist við.