Umferðaröryggi á Gemlufallsheiði

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:53:09 (2093)

2002-12-04 15:53:09# 128. lþ. 46.10 fundur 343. mál: #A umferðaröryggi á Gemlufallsheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og undirtektirnar. Sömuleiðis þakka ég hv. þm. sem hafa tekið þátt í umræðunni og hvatt mjög til að þegar verði ráðist í endurbætur á öryggi á Gemlufallsheiði.

Ég ítreka, herra forseti, að fólkinu sem hefur skrifað hér á lista, nærri 800 manns á Vestfjörðum sem hafa óskað eftir úrbótum þegar í stað í öryggismálum á Gemlufallsheiði, er að sjálfsögðu alvara í hug. Ég veit að okkur öllum sem hér fjöllum um þetta mál er líka alvara í hug.

Í ljósi orða hæstv. samgrh., þar sem hann segir að þetta verði eitt af næstu verkefnum í öryggismálum á Vestfjörðum, tel ég ljóst að það eigi að ráðast í þetta verk. Þá tek ég undir það sem hæstv. ráðherra sagði, það á að kanna hvort hægt sé að ráðast í a.m.k. ákveðna kafla á þessum vegi þegar í stað til að bæta öryggið. Best væri að þetta yrði gert nú, sé þess nokkur kostur, og að því ber að stefna. Að sjálfsögðu verður að tryggja öryggið eftir öðrum leiðum og reyna að bæta og styrkja öryggi um heiðina meðan þetta vegrið er ekki komið og jafnframt þótt það komi því ljóst er að þarna verður ávallt um erfiðan vegarkafla að ræða.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að hér eru undirskriftir nærri 800 Vestfirðinga, hvatning til aðgerða í öryggismálum á Gemlufallsheiði. Ég skora á samgönguyfirvöld að grípa þegar í stað til aðgerða til þess að tryggja öryggi vegfarenda á heiðinni.