Ummæli um evrópskan vinnumarkað

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:17:11 (2105)

2002-12-04 18:17:11# 128. lþ. 46.16 fundur 364. mál: #A ummæli um evrópskan vinnumarkað# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að einhver skuli gefa því gaum hér á Alþingi sem menn eru að bauka við á erlendri grundu í nafni lands og þjóðar, en í þessu tilfelli ekki eingöngu það, heldur í nafni átta ríkja eins og mér hefur verið trúað fyrir á vettvangi fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þingmaðurinn rakti hér ágætlega.

Það þýðir jafnframt það þegar svo mörg ríki eiga hlut að máli að búið er að undirbúa svona ræðu með mjög víðtæku samráði milli landanna og efnisatriði í henni eru engin þau sem allir þessir aðilar geta ekki skrifað upp á. Hér er því um að ræða óvenjuumfangsmikinn og vandaðan undirbúningsferil sem lyktar með því að þessi ræða er samin og lögð fram og hana er að finna á netinu, bæði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hjá okkur í fjmrn. og hefur reyndar birst enn víðar.

Það er fjarri því að það sé stílbrot að í ræðu sem þessari sé vikið að ýmsum vandamálum á efnahagssviðinu um heim allan. Það er þvert á móti verkefnið sem liggur fyrir að ræða á fundum fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og það er það verkefni sem svona ræða á að fjalla um, enda er víða komið við í henni og vikið að ýmsum málum bæði innan og utan Evrópu.

En þetta tiltekna mál sem þingmaðurinn gerir að umtalsefni er þekkt vandamál. Það sem ég segi í ræðu minni við þetta tækifæri er eftirfarandi í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta:

,,Líklegt er að ósveigjanleikinn á evrópskum vinnumörkuðum hamli gegn efnahagsbatanum. Frekari umbóta er þörf á vinnumarkaði til að vinna bug á hinu viðvarandi skipulagsbundna atvinnuleysi.``

Þarna er komið að kjarna málsins. Öll vitum við að atvinnuleysi í Evrópu er stórfellt vandamál og í nýjustu spám er gert ráð fyrir því að það sé u.þ.b. 8% að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum, mun meira í sumum þeirra og enn meira á einstökum svæðum innan einstakra landa. Vel yfir 10% á mörgum stöðum því miður.

Ég tel og það telja mjög margir sem hafa kynnt sér þessi mál að ein af orsökunum fyrir þessu sé sá ósveigjanleiki sem einkennir vinnumarkaði landanna, þvert á það sem við þekkjum hérna á Íslandi, þar sem efnahagslíf okkar og vinnumarkaðir laga sig mjög hratt að breyttum aðstæðum, atvinnuþátttaka eykst eða minnkar o.s.frv. En atvinnuleysið á Íslandi hefur sem betur fer aldrei verið sambærilegt vandamál og það er í þessum ágætu nágrannalöndum okkar. Ein af ástæðunum er sú, leyfi ég mér að fullyrða, og það eru niðurstöður margra manna sem hafa rannsakað þetta mál, að vinnumarkaðurinn er ósveigjanlegur. Það felst í því t.d. að fyrirtæki veigra sér við að ráða fólk í vinnu vegna þess að reglurnar sem gilda um uppsagnir fólks eru oft og tíðum svo harkalegar og erfiðar að fyrirtækin, í stað þess að ráða nýtt fólk í vinnu, reyna þau að koma sér hjá því. Þetta er eitt af vandamálunum. Þetta er ein meginmeinsemdin í evrópsku efnahagslífi, það er þetta atvinnuleysi.

Menn verða að horfast í augu við að það getur verið nauðsynlegt að gera eðlilegar skipulagsbreytingar í rekstri, í hagræðingu, í sameiningu fyrirtækja og fleira, en reglurnar sem um þetta gilda geta oft og tíðum verið þannig að þær ýti beinlínis undir atvinnuleysið í stað þess að vinna bug á því.

Það geta verið reglur um það að einhverjir aðrir en stjórnendur fyrirtækjanna ráði því ef til uppsagna kemur hverjum er sagt upp. Það geta verið reglur sem ráða því að fólki á ákveðnum aldri megi ekki segja upp störfum. Og alls kyns slíkir hlutir sem við þekkjum ekki hér á Íslandi en sem eru til þess að torvelda það að fyrirtæki í þessum löndum ráði sér fólk til starfa. Þar með hafa þær reglur þveröfug áhrif miðað við það sem öll góðmennin sem beittu sér fyrir þeim á sínum tíma ætluðu. Þannig fer nú stundum með hinn besta ásetning manna.