Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:47:54 (2115)

2002-12-04 18:47:54# 128. lþ. 46.17 fundur 378. mál: #A rafmagnseftirlit# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:47]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að ég hafi ekki verið ánægð með þau. Auðvitað erum við ósammála hvað varðar rafmagnseftirlitið. Hæstv. ráðherra telur að það sé ekki bágborið en ég tel það vera bágborið miðað við þá möguleika sem Löggildingarstofan hefur til að veita fjármagn í eftirlit. Ég sagði áðan að ég staðhæfði að það eyrnamerkta fjármagn sem á að fara eða hefur átt að fara í rafmagnseftirlitið og í öryggismálin hafi verið nýtt í annan rekstur Löggildingarstofunnar til þess að láta enda ná saman. Það hlýtur þá að bitna á þeim möguleika sem stofan hefur til þess að fela skoðunarstofunum sem staðsettar eru í Reykjavík að senda menn út af örkinni í sitt eftirlit.

Mjög margir hafa áhyggjur af stöðu mála, t.d. eftirfylgni, ef eitthvað athugavert kemur fram og þarf að bæta, sá þáttur er alveg í skötulíki. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann ætli þá að bæta um betur og auka fjármagn til stofunnar úr því að hæstv. ráðherra hefur ekki áhuga á að breyta lögunum og breyta kerfinu. Hvort hann beiti sér fyrir meiri fjárveitingu til Löggildingarstofunnar. Og ég hvet hæstv. ráðherra til að fara vel í saumana á þessu máli, á starfsemi Löggildingarstofunnar, störfum hennar og hvernig fjármagnið er notað til að vera þá sannfærð í sinni skoðun.