Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:56:32 (2157)

2002-12-05 12:56:32# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:56]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil með almennum hætti taka undir meginatriðið í því sem hv. þm. segir um valdmörk og samskipti þings og framkvæmdarvalds. Ég tel það einnar messu virði að þau mál séu rædd í grundvallaratriðum en ekki endilega út frá einstökum málum sem hér eða við annað tækifæri hafa verið gerð að umræðuefni. Ég tel fulla ástæðu til að skoða slíkt.

Ég tek sömuleiðis undir það sem hv. þm. segir, við verðum stöðugt, með allri virðingu fyrir duglegu framkvæmdarvaldi, að vera vakandi fyrir því að hv. Alþingi, sem er fulltrúi þjóðarinnar, hafi bestu möguleika til þess að veita aðhald og eftirlit eins og því er ætlað. Þetta tel ég umræðu virði út frá almennum sjónarmiðum.

Ég kann ekki skýringar á því sem hv. þm. spyr hér um hvað varðar reiknilíkanið. Ég fullyrði að það er ekki vegna þess að reiknilíkanið sé eitthvert leyndarmál því að það er að sjálfsögðu líkan sem unnið er með í hverjum einasta framhaldsskóla. Það er svona eitt af því sem ég nefndi hér, með því að taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram, að mér hefur fundist nokkuð á skorta að hingað bærust þær upplýsingar. Ég kann enga skýringu á því hvers vegna reiknilíkanið hefur ekki borist. Það mega allir vita sem eitthvað véla um þessi mál að reiknilíkanið og staða framhaldsskólanna hafa verið okkur mjög hugleikin og hafa verið margrædd í fjárln. Fátt er það sem við höfum haft meiri áhyggjur af en einmitt stöðu framhaldsskólanna.

En úrbæturnar skila sér og sýna sig hér í fjáraukalögunum með 220 millj. kr. framlagi.