Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 20:19:05 (2226)

2002-12-05 20:19:05# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[20:19]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Jón Bjarnason, fulltrúi flokksins í fjárln., og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafa farið yfir áhersluatriði Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í ræðum sínum fyrr í dag. Ég tek hér til við að mæla fyrir nokkrum af þeim brtt. sem ekki hefur verið mælt fyrir af hálfu hv. þingmanna flokksins enn þá, og er þá um að ræða þær brtt. sem ég er 1. flm. að. Þessar tillögur eru á þremur þingskjölum, herra forseti, þskj. 572, 578 og 588.

Eins og hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi flokksins í fjárln., gat um í framsöguræðu sinni í morgun hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð beitt sér í umræðunni um menntamálin. Nefndi hv. þm. þar til sögunnar bæði Háskóla Íslands, og ekki síður framhaldsskólana.

Það er auðvitað þyngra en tárum taki, herra forseti, að við skulum þurfa að horfa upp á skólana okkar fá slíka afgreiðslu, þá meðferð sem hæstv. ríkisstjórn leyfir sér í þessari fjárlagavinnu og fjárlagagerð nú. Við erum með ákall bæði frá Háskóla Íslands og frá framhaldsskólunum sem greinilega á ekki að sinna. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál, sérstaklega í ljósi allra þeirra yfirlýsinga hv. þm. ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna, sem stöðugt hamra á því að þeir séu málsvarar menntafólks, málsvarar þess að menntun í landinu verði efld og aukin og vegur hennar verði gerður sem mestur. Sannleikurinn er auðvitað sá, herra forseti, að slíkar fullyrðingar hv. stjórnarþingmanna og hæstv. ríkisstjórnar eru öfugmæli þegar fjárlagafrv. er skoðað.

Hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa leyft sér að leggja fram brtt. við fjárlagafrv. fyrir árið 2003 á þskj. 578 sem lýtur að úrbótum vegna Háskóla Íslands. Ég vil fá að vitna, með leyfi forseta, í nál. 2. minni hluta fjárln. sem er að finna á þskj. 575 í þessu máli, en þar segir í kafla um fjárhagsvanda Háskóla Íslands:

,,Rektor Háskóla Íslands hefur gert menntamálaráðherra ítarlega grein fyrir alvarlegri fjárhagsstöðu Háskóla Íslands en viðunandi lausn á henni hefur ekki fengist. Í minnisblaði frá háskólarektor til fjárlaganefndar Alþingis eru meginatriði fjárhagsvandans skýrð en þau eru:

1. Nemendum í Háskóla Íslands hefur fjölgað meira á undanförnum árum en gert var ráð fyrir. Í samningi háskólans við menntamálaráðuneyti um fjármögnum kennslu er hámarksfjöldi nemendaígilda 4.300. Síðastliðið skólaár voru nemendaígildi 4.699. Halli á rekstri háskólans á árinu 2002 verður um 200 millj. kr. fái háskólinn ekki í uppgjöri greitt fyrir raunverulegan fjölda nemendaígilda. Á árinu 2003 er gert ráð fyrir því að nemendaígildi verði 4.863 og er fjárveiting ársins vanáætluð um 176 millj. kr. af þeim sökum.

2. Á undanförnum árum hefur launastika sem ráðuneyti notar til þess að ákveða nemendaframlög ekki hækkað í samræmi við launahækkanir sem kjaranefnd hefur úrskurðað prófessorum og kjarasamninga sem fjármálaráðuneytið hefur gert við félög háskólastarfsmanna. Að mati háskólans vantar 165 millj. kr. til þess að nemendaframlög hafi hækkað í takt við hækkun launa.

3. Á undanförnum árum hefur fjárveiting til rannsókna hækkað minna en fjárveiting til kennslu. Fyrir fimm árum var fjárveiting til rannsókna 67% af fjárveitingu til kennslu en nú er hlutfallið 60%.

Ljóst er að Háskóla Íslands vantar fjármagn ef hann á ekki að skila rekstrarhalla á næsta ári. Áætlanir menntamálaráðuneytisins um fjárþörf Háskóla Íslands eru ekki í samræmi við fjárþörf hans. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur að bæta þurfi úr þeim rekstrarvanda Háskóla Íslands.``

Tilvitnun í nál. 2. minni hluta fjárln. er hér lokið, herra forseti, og er þá komið að brtt. sjálfri, sem hljóðar upp á það að við fjárlagaliðinn 02-201 Háskóli Íslands, 1.01 Kennsla, bætist 341 millj. kr. Þetta yrði í samræmi við starfsemi sem Háskóli Íslands rekur og í samræmi við þann samning sem í gildi er milli Háskóla Íslands og menntmrn. Verði ekki gerð breyting af þessu tagi er verið að brjóta samning á Háskóla Íslands, sem er þjóðarskóli Íslands, þjóðarskóli okkar á háskólastigi.

Það er auðvitað grafalvarlegt mál, herra forseti, þegar háskólarektor hefur séð sig knúinn til að rita grein í Morgunblaðið, sem birtist síðasta þriðjudag, 3. desember, sem ber yfirskriftina ,,Vill Alþingi skólagjöld?`` Grein þessi er mjög alvarleg lesning, herra forseti, og brýning til Alþingis um að það skoði nú hug sinn hvaða kröfur Alþingi í alvöru gerir á háskólann. Er verið að hrekja Háskóla Íslands út á braut skólagjalda eða ekki? Alþingi hefur talað skýrt í þessum málum. Alþingi vill ekki skólagjöld við Háskóla Ísland. Það eru lög í landinu sem Alþingi hefur samþykkt sem segja til um það. En hvers vegna er þessi mismunun þá í gangi milli Háskóla Íslands og svokallaðra einkarekinna háskóla sem hafa heimild til skólagjalda án þess að nokkuð sé skert það framlag sem ríkið veitir í þá skóla?

Herra forseti. Grein háskólarektors er mjög alvarleg. Hún er svo alvarleg að þingheimur getur ekki látið hana fram hjá sér fara hér og nú á ögurstund þegar verið er að loka fjárlögum fyrir næsta ár. Ég hvet því hv. þm. til að skoða þau mál með opnum huga og sjá til þess að Háskóli Íslands þurfi ekki að verða niðursetningur í flóru háskóla hér á landi.

Herra forseti. Þá kem ég að brtt. á þskj. 572. Þetta eru tillögur sem við kölluðum aftur til 3. umr. við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrv. eftir 2. umr. Í fyrsta lagi er um að ræða brtt. við fjárlagalið 02-971 Ríkisútvarpið, en þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa ítrekað reynt að leggja fram tillögur um að efla Ríkisútvarpið sem hefur átt undir högg að sækja hvern einasta dag og hvert einasta ár sem ríkisstjórnin hefur starfað. Það er ekki bara Háskóli Íslands og Þjóðminjasafn Íslands sem eru niðursetningar í garði þeirrar ríkisstjórnar sem nú ríkir á Íslandi heldur er Ríkisútvarpið einn af niðursetningunum líka.

Það er algjörlega nauðsynlegt, herra forseti, ef við eigum að geta haldið utan um þessa öflugu menningarstofnun okkar, ef við eigum ekki að láta hana drabbast niður og enda í lágkúru lágmenningar, þá verðum við að taka til hendinni og gera Ríkisútvarpinu kleift að efla innlenda dagskrárgerð. Innlend dagskrárgerð Ríkisútvarpsins hefur algera sérstöðu og hefur haft og það er með vilja Alþingis. Lögin sem gilda um Ríkisútvarpið leggja því á herðar miklu ríkari skyldur en nokkurri annarri útvarpsstöð. Það er því óskiljanlegt með öllu að ríkisstjórnin skuli ekki sjá sóma sinn í því að gera Ríkisútvarpinu kleift að standa við sín lögboðnu hlutverk.

En við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjum til að Ríkisútvarpinu verði veitt á fjárlögum næsta árs fé til eflingar innlendri dagskrárgerð upp á 140 millj. kr. Og það væri ekki ofrausn, herra forseti, að láta Ríkisútvarpinu í té slíka upphæð. Það gæti verið góð búbót fyrir innlenda dagskrárgerð bæði útvarpsins og sjónvarpsins, en eins og alþjóð veit hefur innlend dagskrárgerð í sjónvarpi nánast lagst af fyrir utan viðtalsþætti sem hægt er að hafa í beinum útsendingum og innlend dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu hefur verið skorin skelfilega mikið niður. Nú er svo komið að Ríkisútvarpið á Rás 1 þarf að láta sér lynda að vera með kynnta tónlistarþætti á tímum sem áður voru framleiddir metnaðarfullir innlendir þættir.

Í öðru lagi viljum við, herra forseti, að dreifikerfi Ríkisútvarpsins verði styrkt sérstaklega og við höfum vitnað til gagna sem komu frá Ríkisútvarpinu til fjárln. í þeim heimsóknum sem forsvarsmenn Ríkisútvarpsins áttu og þeim fundum sem þeir áttu með fjárln. Við höfum haft þau gögn til viðmiðunar þegar við leggjum það til að Ríkisútvarpið fái til styrkingar dreifikerfisins 70 millj. kr.

Við leggjum til að þessar upphæðir verði greiddar beint úr ríkissjóði en þær fari ekki inn á hækkun afnotagjalds. En það breytir því ekki að við ítrekum það að ríkisstjórnin á eftir að efna loforð um hækkun afnotagjaldsins við Ríkisútvarpið og við köllum eftir því að það loforð verði efnt.

Í öðru lagi, herra forseti, er á þskj. 572 í brtt. okkar tillaga um það að umferðaröryggisáætlun fái sérstaka eyrnamerkta fjárveitingu, en eins og kunnugt er hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt virka hönd á plóg í umræðum um umferðaröryggismál og flutt fleiri en eina tillögu í þeim efnum. Við höfum gagnrýnt það harðlega að umferðaröryggisáætlun sem samþykkt var frá Alþingi síðasta vor skuli ekki hafa fengið þá eyrnamerktu fjárveitingu sem henni þó var heitið í nál. meiri hluta allshn. frá síðasta þingi.

[20:30]

Herra forseti. Ég verð að minna á það að mikil eining var í allshn. þegar ný umferðaröryggisáætlun sem gilda á 2002--2012 var afgreidd frá nefndinni. Í nál. er þess getið að nefndin geri sér fulla grein fyrir því að umferðaröryggisáætlunin feli í sér viðamiklar aðgerðir sem muni kalla á aukið fjármagn til umferðarmála. Nefndin telur þess vegna, og segir frá því í nál. sínu, að fram þurfi að fara kostnaðarmat þeirra aðgerða. Hún telur brýnt að slíkt kostnaðarmat fari fram og að slíkt mat verði síðan lagt fyrir allshn. strax á næsta þingi. Nú er næsta þing u.þ.b. að verða hálfnað og enn bólar ekkert á þessu kostnaðarmati. Ég spyr því hæstv. ráðherra hér --- það er nú ekki nema einn í salnum. Hæstv. fjmrh. situr hér og íhugar, hlustar á mál þingmanna. Ég vil bara fá að heyra hvað er að frétta af þessu kostnaðarmati og af þessari umferðaröryggisáætlun sem allshn. var einhuga um að þyrfti að fá aukið fjármagn núna þegar kæmi að því að afgreiða þau fjárlög sem við hér og nú erum að fara að loka.

Herra forseti. Það er allsendis ófært að ríkisstjórnin sé að skreyta sig með einhverjum fjöðrum sem falla síðan af örfáum vikum eftir að þing er búið að samþykkja að einhver verkefni skuli sett á laggirnar. Það er ekki forsvaranlegt að ríkisstjórnin leiki þá sem sinna umferðaröryggismálum svo grátt að þeim sé gert að sinna umferðaröryggismálunum og fylgja umferðaröryggisáætlun án þess að það sé svo mikið sem búið til kostnaðarmat eða settur eyrir í þær viðamiklu framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til þess að auka umferðaröryggi. Ég minni á það, herra forseti, að hvert einasta mannslíf sem okkur tekst að spara í umferðinni veldur þjóðhagslegum sparnaði svo um munar.

Við höfum lagt til afskaplega hógværar tillögur hér, herra forseti. Við leggjum til að umferðaröryggisáætlun fái sérstakt eyrnamerkt framlag upp á 15 millj. kr. undir fjárlagalið 06-190 Ýmis verkefni hjá dómsmrn. Þetta er það minnsta sem hægt er að komast af með til að ýta þessu viðamikla starfi úr vör.

Í þriðja lagi er á þessu þskj., herra forseti, brtt. okkar við fjárlagalið 14-401 Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar leggjum við til að Setur í Reykjavík fái eilítið lægri upphæð en við lögðum til í brtt. við 2. umr., eða 29,8 milljónir, en Tæki og búnaður fái 3 milljónir eins og við lögðum til við 2. umr.

Herra forseti. Ástæða þessarar brtt. er margþætt. Það sem ég vil nefna er fyrst og fremst það að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt gjörva hönd á plóg við gerð áætlana á borð við náttúruverndaráætlun og rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Herra forseti. Nú vil ég fá að vitna í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem ber nafnið: ,,Velferð til framtíðar. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi.`` Þar lofar ríkisstjórnin sér, þingheimi og þjóðinni að sjálfbær þróun skuli höfð að leiðarljósi við stjórn þessa þjóðfélags sem við byggjum. Eitt af því sem er frumskilyrði fyrir því að sjálfbær þróun geti náð fram að ganga er að búnar séu til stefnumarkandi áætlanir á afmörkuðum sviðum sem skýri vel einstök markmið og skýri nákvæmlega hvernig haga beri framkvæmdum.

Sem dæmi um áætlanir af þessu tagi má nefna samgöngu\-áætlun, byggðaáætlun, landgræðsluáætlun, framkvæmdaáætlun um líffræðilega fjölbreytni, stefnumótun í loftslagsmálum og síðast en ekki síst þessar tvær áætlanir sem ég hef nefnt, þ.e. náttúruverndaráætlun og rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Herra forseti. Það kostar gífurlega fjármuni að búa til áætlanir af þessu tagi og það er ósanngjarnt af ríkisstjórninni að ætlast til þess að þær stofnanir ríkisins sem valist hafa til þess að gera slíkar áætlanir skuli eiginlega þurfa að taka fé frá rekstri, sínum almenna rekstri sem er þó í járnum iðulega. Þetta er því alger viðbót ofan á hið fasta starf þessara öflugu stofnana og það er sannarlega synd að sjá að ríkisstjórnin skuli ekki hafa neitt svigrúm til þess að láta fjármuni í þessa stefnumarkandi áætlanagerð.

Herra forseti. Það er algerlega lífsnauðsynlegt að þessar áætlanir fái litið dagsins ljós. Þá þurfa þær líka að vera unnar af vandvirkni og af fagfólki. Þessu fagfólki er til að dreifa hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar hefur verið unnið af miklu afli og alúð að þessum verkum og nánast upp á krít vegna þess að fólk hefur verið að vinna þetta samkvæmt tilskipun ríkisstjórnarinnar án þess þó að vera öruggt um að fjármunir komi til baka. Það hefur þess vegna þrengt sultarólina í öðrum rekstri. En engin umbun kemur í fjárlagafrv. til þessarar stofnunar sem hefur lagt mjög mikið af mörkum í þessum efnum.

Rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er að verða hlægilegt plagg. Ríkisstjórnin veður áfram í stóriðjustefnu sinni með virkjanir uppi á hálendinu og vill helst byrja á þeim virkjunum sem rammaáætlunin sýnir að valdi mestum usla og mestum skemmdum á náttúruperlunum okkar. Það er sannarlega skammarlegt að ríkisstjórnin skuli ætla að láta þetta plagg daga uppi og fá nánast ekki neina viðurkenningu. Náttúrufræðistofnun fær ekki aura fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í það og það virðist ekki eiga að fara eftir tilmælum þeim sem koma fram í plagginu, sem hefur verið kynnt að hluta því að búið er að kynna eða birta svokallað bráðabirgðamat eða tilraunamat.

Ég vil því meina, herra forseti, að ríkisstjórnin sé að ganga á bak orða sinna, sem má kynna sér í plagginu ,,Velferð til framtíðar``, með því að láta ekki fjármuni í þessa rammaáætlun og ekki heldur í náttúruverndaráætlunina.

Herra forseti. Ég er þá komin að brtt. á þskj. 588. Mér sýnist nú hreinlega að það hafi átt sér stað einhver mistök við gerð fjárlaganna sem menn hafi komið auga á fullseint en þó ekki of seint þannig að ekki sé hægt að leiðrétta þau. Mín trú er sú að við getum leiðrétt þetta mál sem hér um ræðir. Það varðar Kvennaráðgjöfina. Kvennaráðgjöfin hefur hingað til fengið stuðning frá hinu opinbera á liðum félmrn., fjárlagalið 07-999 Félagsmál, ýmis starfsemi. En nú ber svo við í fjárlagafrv. fyrir árið 2003 að Kvennaráðgjafarinnar er í engu getið. Þegar forsvarsmenn Kvennaráðgjafarinnar áttuðu sig á þessu var ansi langt liðið á árið og það var ekki fyrr en 3. desember sem fjárln. fékk erindi frá Kvennaráðgjöfinni þar sem bent var á þetta og send var inn formleg beiðni um áframhaldandi fjárveitingu til Kvennaráðgjafarinnar vegna ársins 2003. Þar eru raktar ástæður þess að Kvennaráðgjöfin sótti ekki um fyrr, en það stafaði m.a. vegna veikinda starfsmanns. Það gefur augaleið að Kvennaráðgjöfin er ekki ofmönnuð. Mér segir svo hugur um að þar starfi einungis fastur framkvæmdastjóri og að öðru liði sé ekki til að dreifa á fastri skrifstofu Kvennaráðgjafarinnar.

Herra forseti. Ég vil geta þess hér að Kvennaráðgjöfin vinnur afskaplega mikilvægt starf og hefur ekki tekið til sín mikið fé á undanförnum árum. Þjónusta Kvennaráðgjafarinnar er fólgin í því að veita ókeypis lagalega og félagslega ráðgjöf til kvenna sem eiga einhverra hluta vegna í vandræðum sem lögfræðinga eða félagsráðgjafa þarf til þess að leysa.

Kvennaráðgjöfin hefur starfað frá árinu 1984. Hún hefur skrifstofu á höfuðborgarsvæðinu en þjónar landsbyggðinni með símaþjónustu. Málum sem Kvennaráðgjöfin fær á sitt borð hefur fjölgað. Ég vil ítreka, herra forseti, að hér er um að ræða ráðgjöf til kvenna sem hafa að öðru jöfnu ekki ráð á að leita sér faglegrar aðstoðar af þessu tagi á opnum markaði eða þar sem greiða þarf full þjónustugjöld fyrir. Kvennaráðgjöfin vísar á réttar leiðir fyrir konur í kerfinu til þess að fara, hafi þær t.d. lent í skilnaði eða öðrum áföllum, þannig að aðstoð félagsráðgjafanna og lögfræðinganna lýtur að því að beina konum á rétta braut til þess að þær geti fengið úrlausn sinna mála, til þess að þær geti sótt rétt sinn.

Lögfræðingar og félagsráðgjafar starfa við Kvennaráðgjöfina ásamt nemum í þessum greinum. Hún hefur því líka þann tvöfalda tilgang að nemar fá þarna ákveðna starfsþjálfun sem hefur reynst þeim afar dýrmæt.

Herra forseti. Sannleikurinn er auðvitað sá að oft þurfa konur að leita sér lagalegrar aðstoðar en eru kannski ekki öllum hnútum kunnugar þannig að þær viti hvert þær eiga að leita. En Kvennaráðgjöfin leysir þá úr vanda þeirra. Það er bara hjá þessari Kvennaráðgjöf þar sem félagslegu hliðinni er sinnt jafnhliða og hinni lagalegu og satt að segja kemur það oft í ljós að sá pakki getur verið bæði þungur að innihaldi og umfangi.

Herra forseti. Ég lýsi því hér yfir að það hlýtur að vera slys að Kvennaráðgjöfin hefur fallið út úr frv. og það hlýtur að vera hægt að leiðrétta það. Í því skyni höfum við lagt fram brtt. á þskj. 588 við fjárlagalið 07-999 Félagsmál, ýmis starfsemi. 1.31 Félagasamtök, styrkir, en þar leggjum við til að liðurinn verði hækkaður um 700 þús. kr. og að sú hækkun verði eyrnamerkt Kvennaráðgjöfinni í tölulið nr. 29 í yfirliti sem fylgir fjárlagaliðnum.

Herra forseti. Við umræðu fjárlaga fyrir tveimur árum gerði ég að sérstöku umtalsefni umhverfishlið fjárlagafrv. En þá bar svo við að ein síða af 534 í frv. var helguð umfjöllun um umhverfismál og ríkisfjármál. Ég kallaði þessa síðu þá, herra forseti, grænu síðuna og átti í þessari umræðu orðastað við hæstv. fjmrh. Geir Haarde sem upplýsti þingheim um að í fjmrn. væri starfandi starfshópur sem hefði fengið það verkefni að skoða núverandi skattkerfi með tilliti til umhverfismála. Í þeirri umræðu bar líka á góma þá staðreynd að innan Ríkisendurskoðunar helga a.m.k. tveir starfsmenn krafta sína umhverfisvænni endurskoðun.

Enga græna síðu, herra forseti, er að finna í fjárlagafrv. fyrir árið 2003 og stjfrv. um úrvinnslugjald, sem um þessar mundir er til umfjöllunar í umhvn. Alþingis, er satt að segja meingallað og verður greinilega erfitt að færa það í það horf að það komist hér í gegnum þingið. Þetta er nú frammistaða ríkisstjórnarinnar, herra forseti, núna tíu árum eftir að Ríó-yfirlýsingin var samþykkt, yfirlýsing sem kveður á um að ríki taki tillit til umhverfiskostnaðar og að hagrænum stjórntækjum sé beitt með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu að mengunarvaldur skuli bera kostnað af menguninni sem hann veldur.

Herra forseti. Í ljósi þessa tel ég ekki úr vegi að spyrja hæstv. fjmrh. um skýrslu starfshóps þess sem okkur var sagt fyrir tveimur árum að væri starfandi innan ráðuneytisins og jafnframt um stefnumörkun á þessi sviði í áframhaldinu því að hægt er að lesa það út úr skýrslunni ,,Velferð til framtíðar`` að hér búi eitthvað að baki, að ríkisstjórnin ætli að fara að taka þessa hluti til endurskoðunar og til ígrundunar og að hér sé breytinga að vænta. En í þessu fjárlagafrv. finnur þess ekki stað.

Herra forseti. Mig langaði satt að segja til að gera að umræðuefni orð hv. varaformanns fjárln., Einars Odds Kristjánssonar, sem var hér í pontu fyrr í dag. En segja má að mér sé runnin reiðin þannig að eiginlega nenni ég ekki að fjargviðrast, enda er hv. þm. fjarverandi. En af því að hann nefndi friðlandið í Þjórsárverum og Norðlingaölduveitu sem ríkisstjórnin hyggst vaða í þá vil ég bara segja, herra forseti, að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar er stórhættuleg fyrir efnahagsástandið og mér sýnist þessi fleygiferð sem er á ríkisstjórninni varðandi þau mál vera vægast sagt undarleg í ljósi fjárlagafrv. því að enn bólar ekki á því að neinar efnahagslegar mótvægisaðgerðir séu kynntar fyrir þingheimi. Ef það á að fara út í þær stórframkvæmdir sem eru á teikniborðinu hjá Landsvirkjun núna bara á næsta ári þá erum við að tala um gífurlega breytingu á öllu fjárlagaumhverfi og öllu efnahagsumhverfi þjóðarinnar. Það er satt að segja sárgrætilegt að hv. varaformaður fjárln. skuli hreyta hér á jafngalgopalegan og ábyrgðarlausan hátt og hann gerði í ræðu sinni út úr sér orðum sem virkilega vekja mann til umhugsunar um stóriðjustefnuna. En síðan verður engin eftirfylgni og það er ekki hægt að finna þess neinn stað í þessum pappírum sem ríkisstjórnin hefur komið með til okkar að þeir séu í alvöru að hugsa um hinar efnahagslegu aðgerðir sem þarf að fara í ef stóriðjustefnan á að verða að veruleika. Mér sýnist þetta vera óráðsía frá upphafi til enda og bera keim af því sem ég gagnrýndi fyrr í máli mínu, þ.e. að ríkisstjórnin ani út í hvert fenið á fætur öðru, gefi yfirlýsingar til hægri og vinstri en geri engar áætlanir og reyni aldrei að sjá hlutina í samhengi eða gera þjóðinni grein fyrir því hvernig eigi að aka þá braut sem hugmyndin er að aka.

Herra forseti. Að svo mæltu get ég lokið máli mínu með því að segja að þessi fjárlög eru vitnisburður um stjórnarstefnu sem hefur verið stjórnarstefna þeirra sem meira bera út býtum í samfélaginu en ekki þeirra sem lægri hafa tekjurnar. Ég geri ráð fyrir að þeir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem eiga eftir að tala í þessari umræðu komi frekar inn á þær brtt. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur til í þá veruna eða í þeim efnum.