Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 17:17:38 (2389)

2002-12-10 17:17:38# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[17:17]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að koma upp í andsvar, ekki til að mótmæla hv. þm. heldur til að þakka honum fyrir ræðu hans sem var mjög málefnaleg og vel rökstudd. Hann setti fram fyrirvara sína við frv. sem við ræðum hér. Það er alls ekki oft sem maður heyrir svona skynsemisrödd úr þessum ræðustól frá framsóknarmönnum. Það var auðvitað mjög gott, í umfjöllun efh.- og viðskn. um málið, að einn stjórnarliðanna talaði af sæmilegri skynsemi varðandi þá þætti sem hv. þm. gagnrýndi.

Það er rétt sem hv. þm. nefndi, þegar við erum að tala um skattalagabreytingar og hvernig sköttum hefur verið létt af fyrirtækjum, að auðvitað eru takmörk fyrir öllu. Þar er komið að ákveðnum punkti þar sem menn hljóta að stoppa við, sérstaklega með þeim rökum sem hv. þm. setti fram varðandi nýtingu á yfirfæranlegum rekstrartöpum.

Mér fannst kannski vanta botninn í ræðu hv. þm., afstöðu hans til þeirra atriða sem hv. þm. nefndi. Ég er að velta fyrir mér hvort ég hafi stuðning hv. þm. við þær brtt. sem ég flyt að því er varðar fyrrkomulag við mat á hlunnindum, svo að ég nefni eitthvað sem dæmi. Eins mætti nefna útreikninga á reiknuðu endurgjaldi sem ég legg til að verði áfram í höndum ríkisskattstjóra en að fjmrh. setji reglur, nánari ákvæði um meginreglur og viðmiðanir. Ef svo væri mundum við auðvitað reyna í sameiningu að ná fram samstöðu í nefndinni sem á eftir að fjalla um málið milli 2. og 3. umr.

Síðan vildi ég loks spyrja hv. þm. hvort skilja megi mál hans svo að hann muni greiða atkvæði gegn því að auka þessar heimildir, úr átta í tíu ár að því er varðar nýtingu á rekstrartöpum.