Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 18:20:39 (2397)

2002-12-10 18:20:39# 128. lþ. 50.7 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[18:20]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þá spyrja á móti: Hvers vegna má þá ekki stofnfjáreigandi í sparisjóði eiga sinn hlut? Ef stofnfjáraðili á 10% í sparisjóði í dag, af hverju má hann ekki eiga það áfram? Af hverju má hann ekki greiða atkvæði samkvæmt því? Eru einhver önnur lög um stofnfjáraðila eða fyrirbæri inni í sparisjóði sem er í rauninni mjög óljóst eignarhald á?

Ég er dálítið hissa á því, herra forseti, að ekki skuli hafa verið gengið betur frá því í nefndinni að ekki væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Hv. þm. segir að það megi ekki ganga beint á eignir manna. Það stendur hér, með leyfi forseta, í áliti Páls Hreinssonar:

,,Ekki er vafa undirorpið að stofnfjárhlutur í sparisjóði telst eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, með síðari breytingum. Það hefur ekki verið talin forsenda, svo um eignarnám sé talið að ræða, að samsvarandi eignarréttur stofnist handa öðrum. Þannig hefur veruleg skerðing eða eyðilegging eigna verið talin nægjanleg.``

Ég hef ekki tíma til að lesa meira upp úr þessari álitsgerð en eftir því sem ég les hana betur, þá sýnist mér að mat lögmannsins sé einfaldlega það að verið sé að brjóta stjórnarskrána. Og mér finnst það mjög alvarlegt ef það er álit lögmannsins. Þess vegna spyr ég enn, herra forseti, hvort leitað hafi verið eftir áliti annarra lögmanna í þessu efni til að ganga úr skugga um að ekki væri verið að brjóta stjórnarskrána. Hv. þm. sagði að hann tryði því að verið væri að setja hérna löggjöf sem væri vönduð löggjöf, eins og hann orðaði það, og ég ætla að vona að þetta sé vönduð löggjöf.